Kveðjubréf til Kristins

Fyrir stuttu síðan kvaddi Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður Framsóknarflokkinn eftir rösklega átta ára veru. Þessi reyndi þingmaður heldur nú á vit hins sérkennilega Frjálslynda flokks. Sá flokkur er nú kominn í það hlutverk að taka við fólki úr nánast öllum öðrum flokkum sem hefur vegnað miður í eigin ranni. Kristinn er aðeins síðasta dæmið í þeirri sögu.  Margt mætti segja um það furðuverk sem Frjálslyndi flokkurinn er orðinn en það verður að bíða betri tíma.
Vera Kristins í Framsóknarflokknum varð stormasöm, einkanlega hin síðari ár. En hann getur ekki haldið því fram að ekki hafi verið tekið vel á móti honum. Honum var treyst fyrir miklu. Aðeins ári eftir inngöngu sína var hann orðinn formaður þingflokksins og hann varð síðan stjórnarformaður Byggðastofnunar.
Þegar hugsað er til baka þá var Kristinn kominn í svipaða stöðu á meðal félaga sinna í Alþýðubandalaginu þegar hann yfirgaf þann flokk eins og hann er nú þegar hann yfirgefur Framsóknarflokkinn. Þeir sem muna þá tíma minnast þess ef til vill að Kristinn var þá farinn að gagnrýna félaga sína í stjórnarandstöðunni opinberlega og taka undir ýmislegt með ríkisstjórnarflokknum.   Að sjálfsögðu höfðu menn innan Framsóknarflokksins heyrt af þessum stíl Kristins en kusu að trúa því ekki á hann að óreyndu.
Félagar hans á þeim tíma vissu hinsvegar fullvel að Kristinn var og er ekki auðveldur í samstarfi. Haft var eftir Svavari Gestssyni þegar ljóst varð að Kristinn væri að ganga í Framsóknarflokkinn að nú væri Ólafs Ragnars að fullu hefnt. Og átti þá við að það hefði ekki verið góð sending að fá Ólaf Ragnar Grímsson yfir í Alþýðubandalagið úr Framsóknarflokknum þegar það gerðist snemma á áttunda áratug 20. aldar.
Eins og áður sagði þá gekk allt vel í fyrstu. Kristinn leiddi framboðslista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1999 og náði þar ágætum árangri. Að loknum kosningum var hann kjörinn formaður þingflokks framsóknarmanna, gat sér gott orð þar í byrjun og lagði fram ýmsar ágætar hugmyndir um eflingu flokksins. Árið 2000 var hann síðan skipaður formaður stjórnar Byggðastofnunar. 
Á því kjörtímabili fór að síga á ógæfuhliðina. Miklir samstarfsörðugleikar urðu í Byggðastofnun á milli Kristins og forstjóra stofnunarinnar, reyndar nánast uppnám á tímabili. Hér skal ekki farið yfir þá sögu en endirinn varð sá að Kristinn lét þar af formennsku árið 2002.
Þegar valið var á framboðslista Framsóknarflokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi haustið 2002 sóttist Kristinn eftir 1. sæti framboðslistans við kosningarnar 2003.  Hann beið þá lægri hlut fyrir Magnúsi Stefánssyni og undi því illa. Kosningabaráttan í kjördæminu bar þess merki og eftir kosningarnar var Kristinn ekki endurkjörinn formaður þingflokksins. Á kjörtímabilinu sem í hönd fór keyrði um þverbak í samstarfinu sem náði hámarki með því að Kristinn var settur út úr öllum nefndum fyrir hönd þingflokksins. Hér er ekki færi á að skrifa þá sögu heldur, en þeir sem þekkja Framsóknarflokkinn vel vita að það þarf mikið til svo gripið sé til aðgerða af þessu tagi innan hans. Eftir að Kristni mistókst síðan öðru sinni að tryggja sér 1. sæti framboðslistans í Norðvesturkjördæmi í þá varð ljóst að hverju stefndi.
Nú er svo komið að leiðarlokum Kristins með Framsóknarflokknum.   Það er léttir fyrir alla eins og Hjálmar Árnason formaður þingflokksins orðaði það í fréttum RÚV. Við vonum að Kristinn sé sáttur með sína ákvörðun og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru líkast til ekki sérlega ósáttir við að sjá á eftir samstarfsmanni sem var búinn að missa áhugann á því að vinna með þeim.
Það er þannig hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokk eða bara hvaða vinnustað sem er að menn eru aldrei sammála um allt. Flestir kannast líklega við að hafa einhvern tíma verið ósáttir við vinnufélaga í lengri eða skemmri tíma.. Það er misjafnt hvað verður úr slíku en yfirleitt er gerð sú krafa til fólks að það láti ekki ágreininginn verða að aðalatriði heldur ræði hann sín á milli og komist að niðurstöðu sem allir vinna síðan sameiginlega að. Oft eru sumir ekki fullkomlega sáttir en setja það til hliðar af því að þeir eiga sér stærri sameiginleg markmið sem skipta meira máli. Kristni auðnaðist ekki að vinna þannig með Framsóknarflokknum.
Það er leitt á vissan hátt því það skrýtna er að á öllum þessum tíma var það sennilega ekki það sem Kristinn sagði sem gerði samstarfið erfitt og síðan ómögulegt – heldur hvernig hann sagði það. Kristinn er mjög hæfileikaríkur maður en líklega á hann ekki vel heima í flokki – hann er líklega betri með sjálfum sér.
Um leið og Kristinn er kvaddur og þakkað fyrir þau ágætu verk sem hann vann líka fyrir flokkinn á þessum átta árum, þá skal honum óskað velgengni á nýjum vettvangi. Þær óskir fylgja þó ekki til flokksins sem hann hefur valið sér því það á sá flokkur ekki skilið.  En Kristinn á það – þrátt fyrir allt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband