Brotlending í vændum?

Flug Vinstri Grænna mælist hátt þessi misserin í skoðanakönnunum. Umhverfismál á umhverfismál ofan eru það sem efst og helst er á baugi á þeim bænum með háværum mótmælum án þess að lagt sé upp með aðrar lausnir eða málin reifuð í heild sinni. Sannarlega þörf umræða en heldur einsleit og ofsafengin á köflum. Þá hafa ýmsir brestir gert vart við sig á þeim bænum að undanförnu, sem rétt er að halda til haga. 
Í Mosfellsbæ samþykkti bæjarfulltrúi VG óafturkræfar vegaframkvæmdir í Álafosskvosinni. Þessi sami bæjarfulltrúi felldi tillögu um að framkvæmdin væri send í umhverfismat. Bæjarfulltrúi þessi skipar 6. sæti á lista VG í SV-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Á síðasta kjörtímabili mynduðu VG og Samfylking Húsavíkurlistann sem fór með meirihluta í bæjarstjórn Húsavíkur. Foringi VG, Steingrímur J. hefur eignað sér hlutdeild í tilurð þess sambræðings. Þessi sami Húsavíkurlisti studdi uppbyggingu álvers við Bakka á Húsavík og undirritaði fulltrúi þeirra t.a.m. samning við Alcoa vegan áforma fyrirtækisins um að byggja 250 þúsund tonna álver við Bakka.
Oddviti VG í bæjarstjórn Akureyrar, Baldvin H. Sigurðsson, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við byggingu álvers við Bakka og lýst því yfir að hann sjái ýmsa atvinnuskapandi möguleika felast í áliðnaðinum.
Síðasti meirihluti í Skagafirði kom Skatastaðavirkjun inn á tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Orkan sem fæst með því að virkja jökulsárnar norðan Hofsjökuls er ætluð til atvinnuuppbyggingar í Skagafirði. Virkjunin var sett inn á skipulag af þessum meirihluta sveitarstjórnarinnar, sem skipuð er VG og Sjálfstæðisflokki.
Í Borgarnesi eru áætlanir uppi um að leggja Þjóðveg 1 út í sjó meðfram bænum. Til stendur að eyðileggja klettaborgirnar sem Borgarnes kennir sig við og fylla upp í víkur og voga meðfram ströndinni. Framsóknarfólk í Borgarfirði hefur lagt til að vegurinn fari í umhverfismat en meirihluti Borgarbyggðar er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og síðast enn ekki síst VG.
Tryggvi Friðjónsson, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur styður samkomulag um að Alcan kaupi af Orkuveitunni 200MW af raforku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík.
Steingrímur J. Sigfússon sagði í þingræðu 2005 að neðri virkjanirnar í Þjórsá væru hagkvæmar þar sem þær nýti alla miðlunina sem fyrir er, ofar á Þjórsársvæðinu. Jafnframt segir hann sjálfsagðar margar hagkvæmar beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám, þar sem þær valdi sáralitlum umhverfisáhrifum og eru afturkræfar í þeim skilningi að fjarlægja megi stíflunar, taka rörin niður og hleypa vatninu aftur í sinn farveg. Þann sama dag segir hann sjálfsagt að ráðast í virkjanir í neðri Þjórsá og nefnir Núpavirkjun og Urriðafossvirkjun í því samhengi.
Vinstri grænir tala í sífellu um þá nauðsyn að þeir komi að velferðarstjórn. Ef ríkisstjórnin sem nú situr, er ekki velferðarríkisstjórn, þá vilja þeir væntanlega leggja enn meiri peninga í félagsmál, heilbrigðismál og menntamál. Gott og vel. Ef þetta er rétt hljóta kjósendur að eiga heimtingu á að vita hvar þeir ætla að skera niður á móti. Nú ef þeir ætla ekki að skera niður á móti auknum útgjöldum verða þeir að segja okkur hvort þeir ætla að taka lán fyrir pakkanum eða hvort þeir ætla að hækka skattana.  
Þá þurfa þeir að svara því hvort það er stefna flokksins alls eða bara Ögmundar að losa ríkissjóð undan því veseni að innheimta skatta af bönkunum okkar. Verkalýðsforinginn sá lét þau orð falla í þingræðu að hann sæi ekki á eftir bönkunum þó þeir færu allir úr landi. Hætta er á að hvini illilega í Ögmundi, formanni BSRB, ef samsvarandi fjöldi og vinnur í bönkunum yrði atvinnulaus í hans eigin bandalagi.
Líklega munu forsvarsmenn VG nota þekkta tækni til að halda umræðunni áfram í umhverfismálunum. Það verður eins og hjá ónefndum háskólanema sem var að fara í munnlegt sögupróf. Neminn tók þann pólinn í hæðina að læra eingöngu um Frönsku byltinguna og ekkert annað. Þegar kom að prófinu snerust öll hans svör um hana.  Hún var ýmist órjúfanlegur undanfari svarsins eða afleiðing þess.  
Hinn almenni kjósandi á mjög erfitt með að gera sér grein fyrir stefnu VG. Þá hafa þeir almennt takmarkaða reynslu þegar kemur að stjórnun og heildstæðri stefnumótun í mikilvægum málum. Þeir eru þekktir fyrir það eitt að vera á móti og maður hlýtur að spyrja sig hvort fylgi þeirra er jafngott og raun ber vitni, vegna þess að þeir hafa aldrei gert neitt – nema að vera á móti. Slíkt flug hlýtur að enda með brotlendingu.  Náttúrulögmálin munu taka þá í sínar hendur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband