Þrætueplið

Undanfarna daga hefur umræða um matvælaverð náð nýjum hæðum þegar menn gera eigin skoðanakannanir, bæði kaupmenn sjálfir og fjölmiðlungar.  Reyndar stálu þrjár kartöflur senunni við upphaf vikunnar, sem breyttust svo í kartöflumýs og umræða bloggheimanna snerist um meint nagdýr. Enginn tók eftir því hvað hinn ágæti Sölvi fréttamaður hafði að segja um matvælaverð. Sem segir okkur kannski það hversu auðvelt er að stela senunni með því að beina athygli að einhverju sem skiptir engu máli við umræðuna. 

Það hlýtur hins vegar að vera athyglivert þegar stórkaupmenn (FÍS) gera verðkannanir á þurrvöru í eigin verslunum í þeim tilgangi að sýna fram á að vara sem þeir könnuðu ekki (les. landbúnaðarafurðir) sé hlutfallslega dýrari hérlendis en annars staðar í Evrópusambandsríkjunum. Tilgangurinn var sá , að sögn talsmanns FÍS, að bregðast við umræðu um verðhækkanir sem komið hafa fram að undanförnu. Þær verðhækkanir eru staðreynd og samanburður við aðra breytir engu þar um.

Í lífinu er það stundum þannig að maður verður að velja og hafna. Í allri umræðunni um landbúnaðarmál hefur gleymst að spyrja stórkaupmenn og neytendur hvort þeir vilji þá afleggja íslenskan landbúnað, því þar verður ekki bæði sleppt og haldið. Haldi menn að bæði sé hægt að halda uppi öflugu atvinnulífi í sveitum landsins og þeirri miklu umsýslu sem því fylgir á sama tíma og hingað flæði óheft allt það magn sem landinn getur í sig látið af erlendum landbúnaðarafurðum, þá er það misskilningur. Framleiðsla á vegum bænda nýtur verndar hér, rétt eins og annars staðar í veröldinni. Það er mikill misskilningur að slíkt viðgangist eingöngu hérlendis. 

Hagstofa Íslands telur að það séu um 5300 störf við landbúnað og aðra þjónustu honum tengda á landsbyggðinni.  Alls eru það líklega ríflega 15000 störf sem tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Þar er um að ræða kjötiðnaðarmenn, verslunarfólk, mjólkurfræðinga, kenanra, verktaka, rafvirkja, bílstjóra, smiði, verkafólk og svona mætti halda lengi áfram.  Hér mætti einnig nefna fjölmörg byggðarlög sem væru í stórhættu líka s.s. Borgarnes, Búðardal, Ísafjörð, Hvammstanga, Blönduós, Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Kópasker, Vopnafjörð, Þórshöfn, Raufarhöfn, Egilsstaði, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Hvolsvöll, Hellu, Flúðir, Selfoss.....  

Landbúnaðarráðherra hefur staðið vörð um þau fjölbreyttu störf sem tengjast landbúnaði.  Því miður hefur hann talað fyrir daufum eyrum stórkaupmanna, sem líklega vildu helst að landsbyggðin flyttist í einu lagi á höfuðborgarsvæðið, hagræðisins vegna.  Reiknilíkön sem gera ráð fyrir slíkri byggðaþróun vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar, því það er lítið vit í því að leggja landsbyggðina í eyði og flytja alla á mölina.

Hérlendis eru niðurgreiðslur ríkisins til sauðfjárbænda ekki meiri en í Bretlandi t.d. og miklu minni en í Noregi. Framundan er lækkun virðisaukaskatts á matvæli, niðurfelling vörugjalda, allt að 40% lækkun á tollum á kjötvörum og áform um aukinn markaðsaðgang búvöru í alþjóðasamningum.  Mjókuriðnaðurinn mun jafnframt halda óbreyttu verði næstu 12 mánuði.  Stóra spurningin verður hvort þessar breytingar munu skila sér í lægra matvælaverði til neytenda.  Stórkaupmenn hafa það í hendi sér.

Af www.framsokn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband