Bankana burt

Einn helsti forystumaður Vinstri-grænna á sviði efnahagsmála er þingmaðurinn Ögmundur Jónasson sem jafnframt gegnir embætti formanns BSRB. Sem kunnugt er hefur Ögmundur séð ofsjónum yfir velgengni íslensks fjármálakerfis og sagt það til vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu. Virðist þá engu skipta að álagður tekjuskattur banka og sparisjóða árið 2006 vegna ársins 2005 nam 11,3 milljörðum króna, sem er 169% aukning frá árinu áður er greiðslurnar námu 4,2 milljörðum. Þar áður nam tekjuskatturinn 1,3 milljörðum þannig að á tveimur árum áttfölduðust þessar skattgreiðslur banka og sparisjóða til ríkissjóðs og meira en það.

Einhver kynni því að telja það mikilsvert að halda hinum öflugu fjármálafyrirtækjum hér á landi enda er hægt að styrkja velferðarkerfið til muna með þessum skatttekjum. Þá má bæta því við að bankarnir hafa þúsundum starfsmanna á að skipa og eru margir þeirra vel launaðir og greiða því skatta til viðbótar því sem að ofan er greint. Óhætt er að fullyrða að margir þeirra myndu fylgja bönkunum úr landi. En Ögmundi finnst greinilega mikilvægt að jafna niður á við þannig að allir hafi það heldur verr en áður og ekki síst virðist honum umhugað um að koma í veg fyrir að ríkissjóður fái auknar skatttekjur til að standa undir öflugri samhjálp. Þetta er maðurinn sem sem er líklegt fjármálaráðherraefni Vinstri-grænna. Hlýtur þingflokkurinn allur að vera að undirbúa kynningu á því hvernig menn þar á bæ sjá fyrir sér að unnt sé að mæta samdrætti í skattheimtu hins opinbera.  

Ögmundur virðist því miður ekki einn um þessa skoðun. Samfylkingin á sitt fjármálaráðherraefni sem er þingflokksformaðurinn Össur Skarphéðinsson. Fyrir skömmu síðan ritaði Össur pistil á heimasíðu sína sem lauk með hinum fleygu orðum: „...og guð forði bönkunum frá því að gera annaðhvort mig eða Jóhönnu Sigurðardóttur að arftaka Árna Matt."  

Össur hefur reyndar ekki enn útskýrt hvað hann átti við með þessum orðum. Það er því ekki fullkomlega ljóst hvaða aðgerðir Samfylkingin er með í undirbúningi gegn bönkunum komist hún til valda í vor en fjölmiðlar hljóta að spyrja forsvarsmenn flokksins út í það. Samfylkingin hlýtur raunar að kynna þær aðgerðir opinberlega fyrir kosningar þannig að kjósendur viti hvað Össur, Jóhanna og félagar hafa í hyggju. Samfylkingin hefur jú haldið blaðamannafund af minna tilefni.  

Þetta er þeim mun mikilvægara fyrir þær sakir að þessir tveir flokkar eru í sumum könnunum alveg við það að ná þingmeirihluta og gangi það eftir munu gömlu kommúnistarnir Össur og Ögmundur láta gamlan og langþráðan draum um herferð gegn auðvaldinu rætast. Þá gæti svo farið að tvö eylönd byggju ein við últra sósíalisma , þ.e. Kúba og Ísland.  

Þá má að lokum nefna að nú nýverið breytti fyrrgreindur Árni Matt., fjármálaráðherrann núverandi, reglugerð sem þrengir mjög reglur varðandi uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt og setur skilyrði sem erfitt getur reynst fyrir fyrirtækin að uppfylla. Hefur stjórnarformaður Straums-Burðaráss gagnrýnt hina nýju reglugerð harkalega.  

Má í ljósi þessa spyrja sig að því hvort sjálfstæðismenn séu að freista þess að koma í veg fyrir ríkisstjórn stjórnarandstöðuflokkanna að loknum kosningum og séu með þessu að senda Steingrími J. fingurkoss.   Steingrími J. og félögum virðist í það minnsta líka daðrið vel og eru andstuttir, rjóðir og undirleitir, þótt seint verði sagt að þeir séu sætasta stelpan á ballinu.

Af www.framsokn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband