Framsókn er leiðandi stjórnmálaafl

Nýverið lauk á vegum Framsóknarflokksins vinnu við greiningu á samningmarkmiðum hugsanlegrar aðildarumsóknar Íslendinga að Evrópusambandinu. Flokkurinn heldur því stöðu sinni sem leiðandi stjórnmálaafl á Íslandi þegar kemur að Evrópumálum.

Allt frá árinu 1995 hafa framsóknarmenn haft frumkvæði að mótun lögggjafar grundvelli EES-samstarfsins sem innleitt hefur frelsi til athafna og miklar úrbætur á mörgum sviðum samfélagsins. 

Flestir eru sammála um að EES- samningurinn hafi markað mikið framfaraspor í íslensku samfélagi. En árangurinn er ekki sjálfgefinn og áhrifa samningsins hefði ekki notið ef til verkefnisins hefði ekki verið ráðist með opnum huga. Á meðan samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hefur gjarnan uppi efasemdir um ávinning af nánu samstarfi við Evrópusambandsþjóðir, þá hafa framsóknarmenn verið einhuga í því að nýta til fulls sóknarfæri samningsins til hagsbóta fyrir Íslendinga. Það hafa þeir ekki síst gert við stjórnun þeirra ráðuneyta sem EES-samstarfið hefur hvílt á af hvað mestum þunga undanfarin 12 ár.

Miðað við óbreyttar aðstæður getur EES-samningurinn áfram verið grundvöllur Evrópusamskipta Íslendinga á næstu árum. En Íslendingar verða að fylgjast náið með framvindunni því ýmislegt getur breytt viðhorfum í Evrópumálum. Þróun mála kann að auka þörfina fyrir virka og beina þátttöku í evrópsku samstarfi. Mikil gerjun á sér nú stað á vettvangi ESB og viðhorf sambandsins til EES-samstarfsins kunna að breytast. Kröfur um lækkaðan viðskiptakostnað geta aukist af hálfu almennings og atvinnulífsins. Þarfir atvinnulífsins fyrir virk og náin markaðstengsl hafa mikil áhrif, m.a. hagsmunir útflutningsgreina og nýsköpunarfyrirtækja. Framvinda í íslenskum gjaldeyrismálum og áhrif hennar á íslenskt efnahagslíf skiptir miklu, svo og skipan gjaldeyrismála Dana og Breta. Tengsl Norðmanna við Evrópusambandið geta haft áhrif hér. Líkur á því að forysta Evrópusambandsins vilji koma til móts við samningskröfur Íslendinga, t.d. í sjávarútvegsmálum, skipta líka miklu máli. Einnig kann að vera mikilvægt að fylgjast með þróun öryggis-og varnarmála sem og umhverfismálum í þessu samhengi. Loks má ekki gleyma fyrirsjáanlegum áhrifum skuldbindinga okkar innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á íslenskt atvinnulíf, ekki síst landbúnað.  

Hugsanlegri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu fylgja augljóslega sóknarfæri. En sóknarfærunum fylgja líka fórnir. Mikilvægt er að á hverjum tíma sé uppi á vettvangi stjórnmálanna greining á kostum og göllum Evrópusambandsaðildar þannig að Íslendingar hafi ætíð á takteinum skýr og greinileg samningsmarkmið. Framsóknarflokkurinn hefur einn flokka lokið vinnu við endurmat samningsmarkmiða. Þannig sker hann sig úr hópi stjórmálaflokka á Íslandi sem flíka lítt ígrundaðri stefnu í Evrópumálum.

Af www.framsokn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband