Skattalækkun og matvöruverð

Í marsbyrjun verða tímamót í verðlagsmálum matvöru á Íslandi og reyndar snerta breytingarnar einnig fleiri vörur og þjónustu. Virðisaukaskattur verður lækkaður niður í 7%, í flestum atvikum úr 14% en í nokkrum tilfellum úr 24,5%. Auk þess verða vörugjöld lækkuð og 40% lækkun tolla verður á ýmsum kjötvörum, samhliða samningum við Evrópusambandið um útflutning búvöru þangað.
Þessar breytingar styðjast annars vegar við sterka stöðu ríkissjóðs og hins vegar við þá staðreynd að nú hefur hagsveiflan snúist þannig frá fyrri þenslu að ráðandi rök benda til þess að lækkanir þessar muni skila sér til almennra neytenda í landinu.
Hér er um mjög verulega kjarabót að ræða, sem nýtist öllum og ekki síst þeim sem minnst hafa á milli handanna. Þessi kjarabót nú bætist við aðrar skattalækkanir, hækkun skattleysismarka og þær miklu umbætur sem eru orðnar nýlega og verða áfram í málefnum aldraðra, öryrkja og lífeyrisþega, með víðtækum aðgerðum ríkisstjórnarinnar upp á síðkastið.
Algengasta verðbreyting 1. mars er um 7% lækkun. En þegar tillit er tekið til annarra lækkana í þessum aðgerðum má reikna heildaráhrifin 9–12% verðlækkun og um 2,6% lækkun í vísitölu neysluverðs.
Auk matvöru lækkar virðisaukaskattur af rafmagni til húshitunar, af gistiþjónustu, af bókum, ritföngum og tímaritum og af hljómdiskum.
Auk þessa hafa framleiðendur mjólkurafurða boðað verðstöðvun um skeið. Kemur þetta til viðbótar við aukinn innflutning kjötvöru sem áður er getið. Bændur hafa sýnt mikilsvert fordæmi og taka á sig byrðar og skuldbindingar við þessar miklu kjarabætur.
Ýmsir hafa látið í ljós efasemdir um að milliliðir og verslunin muni hirða mest af þessu. En slíkt kemur ekki til mála, þar sem um skattalækkanir er að ræða. Skattar eru alveg sér gagnvart verðmyndun vörunnar og ótengdir öðrum verðbreytingatilefnum og aðilar geta á engan hátt laumað einhverjum öðrum hækkunum inn á móti skattabreytingum. En mikilvægt er að allur almenningur fylgist mjög vel með framvindu mála.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband