Spáð í kaffibollann

Nokkurs taugatitrings er farið að gæta á vinstri væng stjórnmálanna þegar aðeins eru um þrír mánuðir til kosninga. Samfylkingin hefur látið á sjá í skoðanakönnunum að undanförnu og frelsarinn sem átti að losa vinstri menn úr álögum og sameina þá til sigurs er greinilega farinn að örvænta. Ekki að ástæðulausu því þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kölluð til í landsmálapólitíkina fyrir fjórum árum mældist fylgi Samfylkingarinnar afar hátt en nú er frægðarsólin heldur tekin að hníga. Til marks um það má sjá að í byrjun mars 2003 mældist Samfylkingin í ríflega 40% fylgi hjá Þjóðarpúlsi Gallup en er nú aðeins 24% samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði í síðasta mánuði. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins á þessu kjörtímabili. Það er því um pólitískt líf eða dauða Ingibjargar Sólrúnar að tefla að loknum kosningum í vor. Ef Samfylkingin nær ekki að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum er hætt við því að flokksmenn geri kröfu um að drottningin víki og að einhver nýr og ferskari taki við (eða Össur/Jón Baldvin - eitthvað sem meira að segja Kolbrún Halldórsdóttir á vart von á!). Er þá hætt við að Ingibjörg muni sakna gullaldarára sinna sem borgarstjóri og súta mjög að hafa látið svila sinn telja sig á að taka varaþingmannssæti á lista fylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir fjórum árum.
Kostir Samfylkingarinnar
En hvaða kostir eru í stöðunni? Fyrir það fyrsta hefur Ingibjörg Sólrún greinilega metið það sem svo að hún yrði örugglega send í skammarkrókinn ef Steingrímur Joð og félagar hlytu fleiri þingsæti en hennar eigin flokkur. Því þyrfti hún að reyna að ná því fylgi sem Samfylkingin hefur misst þangað til baka aftur (forsætisráðherrastóllinn gæti jú verið í húfi). Í því ljósi verður m.a. að skoða breytta strategíu hennar í stóriðju- og virkjanamálum, þrátt fyrir að henni hafi ekki tekist að taka allan flokkinn með sér í þá ferð. Með sömu fléttu vill hún forðast það að missa enn frekara fylgi til mögulegs framboðs klofnings úr Framtíðarlandinu. Þá er því spáð hér að við eigum örugglega eftir að verða vitni að fleiri útspilum í þessa átt, án þess þó að hjólað sé með mjög beinskeittum hætti í félagana í villta vinstrinu, enda hlýtur stjórnarsamstarf til vinstri að vera fyrsti kostur formannsins og „hæfilegir“ fylgisyfirburðir umfram Vinstri-græna því fullnægjandi.
Ef litið er til mögulegs vinstra samstarfs hlýtur Samfylkingin að geta hugsað sér að mynda stjórn með Vinstri-grænum, að því gefnu að Samfylkingin njóti fylgis umfram þá. Flokkarnir tveir naga augljóslega fylgi hvor af öðrum og geta því tæplega myndað ríkisstjórn án utanaðkomandi aðstoðar. Ekki hjálpa ný smáflokkaframboð til í þeim efnum. Fyrsti kostur hefði sennilega verið að leita til Frjálslynda flokksins til að tryggja fullnægjandi meirihluta en í ljósi brotthvarfs „skynsama“ armsins þaðan og ógeðfelldra tilburða meintra „frjálslyndra“ gagnvart innflytjendum er hæpið að þangað sé nokkuð gott að sækja. Ef nýir flokkar njóta ekki þeim mun meira fylgis hlýtur Ingibjörg Sólrún því að leita til hinnar hófsömu miðju Framsóknarflokksins með styrk til handa vinstri flokkunum.
Hinn kosturinn í stöðunni fyrir Ingibjörgu Sólrúnu er að kyngja stoltinu (og tvíburaturnatali, meginandstæðingsfrösum o.fl. um leið) og mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hætt er við að grasrót Samfylkingarinnar yrði brugðið við og mikil óánægja myndi magnast upp en formannsstólnum væri þó trúlega borgið um hríð.
Vinstri-grænir
Kostir Steingríms Joð eru heldur betri en Ingibjargar. Steingrímur var ráðherra í vinstri stjórn nafna síns Hermannssonar og getur því trúlega vel hugsað sér slíkt samstarf að nýju. Hann gæti eflaust líka kyngt innflytjendastefnu „frjálslyndra“ til að mega gegna ráðherraembætti einu sinni enn áður en hann sest í helgan stein. Þá hafa sumir Vinstri-grænir talað fjálglega um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og vafalítið gæti slíkt samstarf enst í ár eða tvö. Stutt samstarf myndi á hinn bóginn gefa þeim orðrómi byr undir báða vængi að Vinstri-grænir séu einfaldlega ekki stjórntækir, líkt og fordæmi frá sveitarstjórnarstiginu hafa gefið til kynna. Ef flokkurinn hrökklaðist þar að auki úr stuttu stjórnarsamstarfi er hætt við að Steingrími þætti mál að linni og finndist ríflega 25 ára þingseta vera nægjanleg. Leitin að arftakanum gæti hins vegar orðið flokknum sársaukafull enda skoðun flestra að foringinn haldi merki flokksins á lofti nær einsamall og lítið púður væri í Vinstri-grænum án hans.
„Frjálslyndir“
Flokkur Guðjóns Arnars er í bullandi tilvistarkreppu. Hófsemin og stöðugleikinn (það sem til var af hvoru tveggja) hvarf með Margréti Sverrisdóttur og fordómar og andúð gegn innflytjendum vaða uppi hjá þeim hópi sem vann sigur í kjörkassaleikfiminni fyrir skemmstu. Að flokkurinn kalli sig frjálslyndan er orðið mikið rangnefni eða hreinlega blekking. Fyrir vikið er flokkurinn ekki eins álitlegur til samstarfs og áður og virðist sem hann ætli að mála sig enn frekar út í horn með ásökunum á hendur öðrum flokkum um hræðsluáróður gagnvart „frjálslyndum“. Má þar til að mynda vitna í skrif Sigurjóns Þórðarsonar gegn Vinstri-grænum í Blaðinu í gær. Er þá enn ótalið að „frjálslyndir“ hafa tekið við þeim Valdimar Leó Friðrikssyni og Kristni H. Gunnarssyni. Hæpið er að slík samsuða úr mörgum ólíkum flokkum muni bæta samstöðuna eða auka uppbyggilegar og jákvæðar umræður og stefnumótun.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðismenn munu fyrst og síðast miða alla sína strategíu við að halda völdum áfram. Takist þeim það gæti farið svo að flokkurinn færi með meirihluta í stjórnarsamstarfi í 20 ár samfellt. Það færi þá eftir samstarfsflokknum hvort íslenskt samfélag þróaðist með svipuðum hætti og til að mynda í tíð Viðeyjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, eða hvort stjórnartilburðirnir yrðu nær því að verða eins konar endurspeglun á meirihlutasamstarfi því sem var hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri-grænum í Skagafirði og er nú í Mosfellsbæ. Þá skiptir miklu máli í þessu samhengi hvort Geir Haarde takist að halda flokknum sameinuðum og samstíga á næstu árum eða hvort óánægja með „félagshyggjudaður“ og hyglun annars armsins umfram hinn verði til þess að formannstíð Geirs verði hlutfallslega mjög stutt miðað við það sem kemur til með að verða a.m.k. ríflega 20 ára þingseta hans. Ljóst er að ef til þess kemur horfa margir til þess að erfðaprinsinn sé fremur Bjarni Benediktsson en varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn er elstur stjórnmálaflokka á Íslandi með ríflega 90 ár að baki. Flokkurinn hefur ávallt verið á miðju stjórnmálanna og tekið ábyrga afstöðu byggða á málefnalegum sjónarmiðum umfram kreddubundnar skoðanir sem finnast á sitt hvorum væng stjórnmálanna. Almenningur veit fyrir hvaða sjónarmið flokkurinn stendur. Á síðustu árum hafa nýir flokkar hins vegar reynt að taka sér stöðu nær miðjunni og ná til sín fylgi þaðan. Er skemmst að minnast daðurs í þá átt af hálfu Samfylkingar og bleiks framboðs Sjálfstæðisflokksins sl. vor. Ef til vill hefur þetta tekist að nokkru leyti. Framsóknarmenn eru hins vegar alls óhræddir og vita sem er að kjósendur vilja þegar allt kemur til alls búa við málefnalega umræðu, festu, traust og stöðugleika.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband