Forseti Íslands og ábyrgð ráðherra

Hún er skrýtin umræðan um setu forseta Íslands í Þróunarráði Indlands og virðist Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, eiga erfitt með að greina hver beri stjórnsýslulega ábyrgð á embættisverkum forseta Íslands. Þannig hefur hann krafið Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra svara um almennar embættisfærslur forseta Íslands. Og af hverju skyldi það nú vera?
Í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands segir nefnilega skýrum orðum að forsætisráðuneytið fari með mál er varða embætti forseta Íslands. Þessi skipan er vitaskuld ákaflega eðlileg þar sem forsætisráðherra er sá ráðherra sem forseti Íslands hefur kvatt til forsætis, eins og það er orðað í stjórnarskránni.
Meginábyrgð á málefnum sem varða forsetaembættið hvílir þannig á forsætisráðherra, en ekki utanríkisráðherra eins og formaður utanríkismálanefndar virðist halda, sem og reyndar ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins.
Hins vegar er ljóst að einstök fagráðuneyti bera ábyrgð á embættisgjörðum forseta Íslands í þeim málaflokkum sem undir þau heyra. Þannig ber utanríkisráðherra að sönnu ábyrgð á embættisverkum forseta Íslands í utanríkismálum, þ.m.t. setu forseta Íslands í áðurnefndu Þróunarráði Indlands.
Í dag, föstudaginn 9. febrúar,  greindi Valgerður Sverrisdóttir utanríkismálanefnd frá tildrögum og eðli málsins og ekki á ráðherranum annað að heyra en að seta forseta Íslands í ráðinu sé af hinu góða og embættinu samboðið. Hins vegar hafi forsetaembættinu láðst að eiga eðlilegt samráð við utanríkisráðuneytið í aðdraganda ákvörðunar forsetans og embættin vinna að því að bæta verkferla og boðleiðir. Sem er auðvitað þarft og hið besta mál, enda mikilvægt að nýta forseta Íslands til góðra verka á erlendri grundu.
En af hverju hefur Halldór Blöndal svona mikinn áhuga á forseta Íslands og embættisverkum hans? Skyldu gamlar erjur, eins og synjun forseta Íslands að staðfesta lög um fjölmiðla, hafa eitthvað með sýndan áhuga að gera? Eða er hér á ferð gamalkunnur pirringur sjálfstæðismanna yfir því að Ólafur Ragnar Grímsson sé yfirleitt forseti Íslands? Átti að freista þess að fá Framsóknarflokkinn með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar til að taka slag, sem Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að taka.
Það skyldi þó ekki vera hin eiginlega ástæða?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband