Kosningamogginn

Reykjavíkurbréf
Því hefur verið haldið fram að reglulega, og ekki síst þegar að nær dragi kosningum, sleppi Morgunblaðið hlutleysisgrímu sinni og leggist duglega á árarnar með Sjálfstæðisflokknum. Reykjavíkurbréf Moggans í gær var að mörgu leyti engin undantekning á því, t.d. með því að rifja upp rykfallnar dáðir Birgis Kjarans á sviði náttúruverndarmála og freista þess þannig að draga fram eilítið grænan lit á þennan heiðbláa flokk. Enda ætti hann trúlega í nokkrum erfiðleikum ef fram kæmi náttúruverndarframboð sem hefði frjálslynda og borgaralega skírskotun.
Í þessu ágæta bréfi fór Mogginn hins vegar vítt og breitt yfir hið pólitíska litróf og spurði margra áleitinna spurninga sem fróðlegt væri að fá svör við. Sumar þeirra kunna að vera hins vegar að vera erfiðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Kjalvegur og hvalveiðar
Meðal þess sem Mogginn tók upp var hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins myndi bregðast við umræðum um vegagerð á hálendinu. Sem kunnugt er hafa nokkrir einkaaðilar stofnað félagið Norðurveg ehf. sem hefur það að markmiði að undirbúa mögulega lagningu hálendisvegar til þess að stytta vegalengdina á milli Suður- og Suðvesturlands annars vegar og Norðurlands hins vegar. Ætlunin er að leggja veginn í einkaframkvæmd og fjármagna hann með veggjöldum. Vakti Morgunblaðið athygli á því að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefði ekki talað með skýrum hætti um afstöðu sína til þessa máls og raunar að forysta flokksins hefði ekki brugðist við málinu heldur.
Sömuleiðis vakti höfundur Reykjavíkurbréfs athygli á því að ekki væri vitað hvort Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur væri hlynntur hvalveiðum eða hvort þær væru einkamál Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra. Er það ítrekun á fyrri gagnrýni Morgunblaðsins á hvalveiðar Íslendinga sem blaðið telur hafa skaðað atvinnugreinar og ímynd landsins verulega.
Styður Sjálfstæðisflokkurinn það ekki að auðlindir sjávar verði sameign íslensku þjóðarinnar?
Það sem hvað mesta athygli vekur þó í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi er gagnrýni blaðsins á að ekki hafi enn verið efnt ákvæði í stefnuyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka sem kveður á um að binda skuli í stjórnarskrá að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Gengur Mogginn svo langt að fullyrða að enginn flokkur standi gegn því að tryggja breytingu stjórnarskrárinnar í þessa veru nema Sjálfstæðisflokkurinn. Er hér um harkalega aðfinnslu að ræða en sanngjarna, þar sem núverandi stjórnarflokkar hafa lagt ríka áherslu á það í samstarfi sínu sem nú hefur varað í hartnær 12 ár að standa við stjórnarsáttmálana og uppfylla kosningaloforð sín til hins ítrasta. Greinarhöfundur heldur svo gagnrýninni áfram og vekur athygli á að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki hafa forystu um að hækka auðlindagjald svo neinu verulegu nemi enda hafi flokkurinn lagt of mikla áherslu á stóru milljarðarfyrirtækin og gleymt að styðja við bakið á einyrkjum í atvinnulífinu eins og trillukörlunum.
Við hvað er Mogginn hræddur?
Skilja má höfund Reykjavíkurbréfs sem svo að stjórnmálaflokkarnir, og þá er sjónum einkum beint að Sjálfstæðisflokknum ef miðað er við Kremlarlógíu blaðsins, hafi komist upp með að vera ekki nógu skýrir í málflutningi sínum og þá ekki hvað síst þegar um grundvallarmál sé að ræða sem varði fólkið í landinu miklu. Forysta Sjálfstæðisflokksins með Geir H. Haarde í broddi fylkingar þurfi því að koma fram á sjónarsviðið og tala skýrt. Að öðrum kosti kann framboð fólks eins og Margrétar Sverrisdóttur og annarra sem vilja höfða til fólks hægra megin við miðju að ræna fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.
Af þessu má ljóst vera að flokkar bæði til vinstri og hægri í íslenskri pólitík eru óttaslegnir vegna mögulegra nýrra framboða. Vinstri flokkarnir voru þannig með sérlega útsendara á fundi Framtíðarlandsins í liðinni viku sem töluðu niður framboð samtakanna, fólk eins og Kolbrúnu Halldórsdóttur alþingismann Vinstri-grænna, Hjörleif Guttormsson og Dofra Hermannsson framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar. Mogginn kýs hins vegar að sinna forvörnum og ráðleggur Sjálfstæðisflokknum að tala skýrar og hlusta á raddir þeirra sem fara með atkvæðisréttinn. Það geri flokkurinn ekki í dag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband