Riddarar stjórnarandstöðunnar

Almenningi er í fersku minni umfjöllunin og þrýstingurinn um fjárhagslegan stuðning við Byrgið sem tröllreið þjóðfélaginu fyrir aðeins fáeinum misserum. Stjórnarandstaðan kvartaði sáran undan því að tæknileg atriði eins og samningar stæðu í vegi fyrir því að lagt væri inn á reikning forstöðumannsins í hvelli og töldu aldrei nógu vel gert við Byrgið. Auðvelt er að fletta upp í skjalasafni Alþingis og verða sér úti um þau ummæli sem féllu í sölum þingsins. Starfsmenn og vistmenn Byrgisins fjölmenntu á palla Alþingis til að fylgjast með fjárlagaumræðu þar sem málefni Byrgisins voru til umfjöllunar. Lögreglan hvatti stjórnmálamenn til þess að halda Byrginu gangandi, fyrrverandi landlæknir, sem gegndi stöðu verndara í Byrginu, hvatti til þess sama og hálfur þingheimur auk forseta Íslands lét sig málefni Byrgisins varða. Bar allt að sama brunni. Í Byrginu var unnið starf sem mikil þörf var fyrir. Þróttur og þrautseigja einkenndi framgang starfsmanna Byrgisins og slíkt talið bæði göfugt og aðdáunarvert. Að þessari niðurstöðu kemst matsmaður utanríkisráðuneytisins í hinni „kolsvörtu“ og „leynilegu“ skýrslu, sem fjölmiðlar hafa haldið á lofti og er hún þó hvorugt. Skýrslan er nefnilega meðmælaplagg með Byrginu þar sem hvatt er til áframhaldandi stuðnings við Byrgið þótt jafnframt séu lagðar til úrbætur. Fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins kunni vissulega ekki að færa bókhald en starf hans var á þeim tíma talið bæði göfugt og aðdáunarvert. Ekki kom nokkrum manni í hug misferli eða níðingsverk, hvorki framsóknarmönnum né öðrum, og alls ekki matsmanninum sem lagði til að Byrgið yrði styrkt með milljónatugum á ári.
Nú ber svo við að stjórnarandstaðan hefur hlaupist frá ábyrgð í málinu, hefur hátt í þinginu og kannast lítt við stuðning sinn við Byrgið hér á árum áður. Össur Skarphéðinsson gekk svo langt að ota ógnandi vísifingri að prúðmenninu Jóni Kristjánssyni og hafa uppi stór orð um „sekt“ framsóknarmanna í málinu. Rétt eins og þegar formaður Samfylkingarinnar taldi óhæfuverk barnaníðinga vera dæmi um vonda ríkisstjórn!
Það var þessi sami formaður sem hóf að styðja Byrgið úr borgarstjórastóli með eftirlitslausum fjárframlögum úr borgarsjóði. Þá hefur Guðjón A. Kristjánsson farið með veggjum undanfarið enda einn helsti hvatamaður þess á þingi að Byrgið fengi fé á fjárlögum auk þess sem hann bauð forstöðumanninn fram til þingsetu í síðustu alþingiskosningum.
Hér er um grafalvarleg mál að ræða og stjórnarandstöðuþingmenn notfæra sér mannlegan harmleik til þess að slá sig til riddara. Slíkt er með öllu óþolandi og þingmönnum til háborinnar skammar. Málflutningur þeirra breytist dag frá degi, stundum er það eftirlit með fjárreiðum Byrgisins og stundum meðferðarúrræðin sem henta þeim ekki. Í vikunni voru það svo ungar mæður, sem verið höfðu skjólstæðingar Byrgisins, sem háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson barði sig til riddara með. Þrátt fyrir málflutninginn er þó hollt fyrir kjósendur að sjá þingmenn sýna sitt rétta eðli.
Félagsmálaráðherrann Magnús Stefánsson erfði málið frá forverum sínum. Hann hefur tekið fulla ábyrgð á því og brást strax hárrétt við með því að koma málinu í eðlilegan farveg. Yfirvegun og öryggi hafa einkennt öll hans viðbrögð og hann hefur ekki látið ósvífni stjórnarandstöðunnar koma sér úr jafnvægi. Ef litið er til viðbragða ráðherrans þá eru þau eftirfarandi:
1. Skjólstæðingum Byrgisins var fundið nýtt skjól þegar Byrginu var lokað.
2. Skv. lögum um hlutverk sveitarfélaga hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar nú í samvinnu við félagsmálaráðuneytið sett á fót vinnuhóp sem vinnur að framtíðarlausn fyrir þá sem sökum langtíma áfengis- og vímuefnaneyslu hafa ekki í nein hús að venda.
3. Kærumál á hendur forstöðumanninum sjálfum eru í réttum farvegi og fá eðlilega meðferð hjá lögregluyfirvöldum og hugsanlega dómskerfi í framhaldinu.
4. Fjárlaganefnd vinnur að tillögum sem varða eftirlit með verkefnum sem njóta stuðnings nefndarinnar.
5. Félagsmálanefnd skoraði á ríkisstjórnina að skipa áfallateymi sem skipað verður sérfræðingum í geðheilbrigðismálum til að veita þeim tafarlausa aðstoð í heilbrigðis- og félagskerfinu sem eiga um sárt að binda eftir vist sína í Byrginu. Ríkisstjórnin hefur brugðist við og falið sérfræðingum Landspítala háskólasjúkrahúss undir forystu Bjarna Össurarsonar, yfirlæknis vímuefnadeildar geðsviðs spítalans, að annast það verkefni.
Þetta kallar stjórnarandstaðan að hlaupast undan merkjum og gólar enn stríðsfyrirsagnir um sekt annarra. Þeirra eigin sekt er þó líklega ástæðan fyrir þeirri ómálefnalegu umræðu og því pólitíska keiluspili, með viðeigandi útúrsnúningi, sem stjórnarandstöðuþingmenn bjóða almenningi upp á þessa dagana.  Meiri riddaramennskan það!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband