Tímamót í jafnréttissögu á Íslandi

Á blaðamannafundi í vikunni, kynnti Magnús Stefánsson, ráðherra jafnréttismála, nýtt lagafrumvarp um jafna stöðu og rétt kvenna og karla.  Frumvarpið markar tímamót í sögu jafnréttismála hérlendis.  Þar eru þyngri áherslur lagðar í jafnréttismálum en nokkru sinni fyrr.

Helstu atriði frumvarpsins eru þessi:

1.  Jafnréttisstofa fær heimildir til að krefja opinbera aðila, atvinnurekendur og félagasamtök um upplýsingar vegna einstakra verkefna og mála sem hún vinnur að. Séu upplýsingar ekki veittar er heimilt að leggja á dagsektir. Eftirlit með stöðu jafnréttismála verður þannig mun virkara en verið hefur.

2. Kærunefnd jafnréttismála fær auknar heimildir, t.d. með því að fresta réttaráhrifum úrskurðar og að úrskurða um að sá sem kæra beinist gegn greiði málskostnað kæranda. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað.  Þá er jafnframt lagt til að kæranda verði veitt gjafsókn ef gagnaðili höfðar mál til ógildingar úrskurði.  Þannig verður kærendum gert auðveldara um vik að höfða mál.

3. Fjölgað verður í Jafnréttisráði og jafnréttisþing haldið á tveggja ára fresti.

4.  Fyrirtæki sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri skulu fylgja framkvæmdaáætlun um jafnréttismál til að ná fram jafnrétti á vinnustaðnum.  Áætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti og gefa skýrslu til Jafnréttisstofu.  Heimilt verður að leggja dagsektir á fyrirtæki sem ekki sinna þessu lagaákvæði. Þannig eru stjórnendur fyrirtækja hvattir til að gefa jafnréttismálum meiri gaum en áður.

5.  Launaleynd verður aflétt. Lögin kveða á um að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun eða önnur starfskjör sín. Jafnframt er kveðið á um að menntamálaráðherra ráði jafnréttisráðgjafa sem fylgi lögunum eftir um menntun og skólastarf og veiti ráðgjöf í jafnréttismálum. Launaleynd hefur til langs tíma verið talin dragbítur við leiðréttingu kynbundins launamunar. 

6. Við tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal gæta þess að hlutfall hvors kyns sé sem jafnast og ekki minna en 40%. Þó er talað um þriðjung í þriggja manna nefndum.

7. Taka skal mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum þegar meta skal hvort ákvæði frumvarpsins hafi verið brotin við  tilteknar ráðningar.

8. Jafnréttisumsögn fylgi öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi.

Nefndin var skipuð af félagsmálaráðherra sumarið 2006 í tilefni af því að jafnréttislög tóku gildi.  Nefndinni, sem var þverpólitík, stýrði Guðrún Erlendsdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari og ber við þessi tímamót að þakka henni sérstaklega fyrir sín störf, auk annarra sem að starfinu komu. 

Frumvarpið í heild sinni má finna hér.

7. mars 2007 verður hér eftir færður til bókar sem tímamótadagur í sögu jafnréttismála á Íslandi.

 

Af www.framsokn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband