9.3.2007 | 17:50
Stjórnarandstaðan á puttanum
"Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."
Í 72. grein segir svo að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.
Stjórnarandstaðan, öðru nafni kaffibandalagið, hljóp upp til handa og fóta þegar fréttist af því að Framsóknarmenn væru tilbúnir til að láta sverfa til stáls ef íhaldið uppfyllti ekki samstarfssamninginn og gerðu í framhaldinu ítrekaðar tilraunir til að hengja sig á málið. Var m.a.s. boðað til blaðamannafundar í þinghúsinu, að formanni Samfylkingarinnar fjarstöddum, til að greina frá tíðindunum. Kaffibandalagið var til í að húkka far með Framsókn á kostnað íhaldsins. Málið talið þess eðlis að það þyrfti að keyra það í gegnum þingið í grænum hvelli. Ekkert mætti bíða með það. Össur tók sérstaklega fram að nú hefði myndast nýr meirihluti á Alþingi. Þetta var fyrir þremur dögum síðan.
Nú þegar ríkisstjórnarflokkarnir hafa svo náð samkomulagi um samkomulagið er heldur betur komið annað hljóð í strokkinn. Hver stjórnarandstæðingurinn stekkur fram á sjónarsviðið, hver með sína skýringuna sem þó eru allar á einn veg; Kaffibandalagið er ekki hrifið. Það getur á þessari stundu ekki svarað því hvað það er sem það er ekki hrifið af en það er samt ekki hrifið. Meira að segja svo lítið hrifið að það segir óvíst að tilboðið, um að styðja þetta sama stjórnarskrárákvæði fyrir þremur dögum síðan, gildi. Og það þrátt fyrir að kaffibandalagið viti ekki almennilega hvað það er sem það er ekki hrifið af. Kannski er það bara ekki hrifið af því að hafa ekki fengið að fara rúnt með Framsókn. Lái þeim hver sem vill!
En líklega þarf að fara að hella upp á, rétt eina ferðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook