Þegar fólk veldur vonbrigðum

Margrét heitir kona ein og er Björnsdóttir, með S-i á milli. Hún hefur s.l. 23 ár stýrt Endurmenntunardeild HÍ og hlaut árið 2000 viðurkenningu af hálfu skólans fyrir framlag sitt til uppbyggingar deildarinnar.  Þessi sama Margrét er félagi í Samfylkingunni í Reykjavík. Hún skrifaði grein í Morgunblaðið í gær um meintan ójöfnuð á Íslandi.

Í greininni fjallar Margrét um aðbúnað hafnfirskrar einstæðrar móður fyrir fjörutíu árum síðan, eða árið 1968 og líkir þeim aðbúnaði saman við aðstæður Íslendinga í dag.  Hún bendir á að samanburður hljóti alltaf að vera afstæður þ.e. að menn meti stöðu sína út frá öðrum í samfélaginu. Einmitt þessi setning gerir það að verkum samanburður hennar á aðstæðum í sama samfélagi með 40 ára millibili hefur það hlutverk eingöngu að kalla fram hughrif hjá lesandanum. Þar er ekki um raunverulegan samanburð að ræða.

  Í greininni, sem er löng lesning, telur Margrét upp marga neikvæða hluti sem ójöfnuður í samfélaginu kallar fram og hefur áhrif á. Flest af því sem hún segir í þeirri upptalningu er satt og rétt og ber að þakka fyrir faglega samantekt á því.  

En hvaða ójöfnuð er Margrét að tala um?
Margrét leggur ríka áherslu á samantektir Stefáns Ólafssonar um meintan ójöfnuð á Íslandi. Sú áhersla er sérstök í ljósi þess að oft hefur verið bent á það að Stefán velur sér forsendur til að vinna með, ber saman ólíka hluti og kallar fram mjög bjagaða mynd af raunveruleikanum. Stefán hefur t.d. reiknað s.k. GINI stuðul fyrir Ísland til að bera saman við sama stuðul í öðrum löndum. Þar reiknar hann tekjur manna með öðrum hætti en gert er annars staðar og er samanburðurinn því ómarktækur. Dr. Ragnar Árnason prófessor við hagfræðideild HÍ og samstarfsmaður þeirra Stefáns og Margrétar hefur rannsakað skattframtöl Íslendinga aftur til ársins 1993 og komist að þeirri niðurstöðu að allir hópar samfélagsins hafa hækkað hlutfallslega jafn mikið á s.l. 13 árum, utan mjög fámennan hóp sem trónir á toppnum.  

Áherslan er ekki síður sérstök fyrir þær sakir að Hagstofa Íslands hefur einnig reiknað GINI stuðul fyrir Ísland á sömu forsendum og aðrar þjóðir. Þar skipar Ísland sér í sæti með Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu og Austurríki.  Ójöfnuðurinn í Evrópusambandinu mælist 0,31 á meðan hann mælist 0,25 á Íslandi. Sama Evrópusambandi og Samfylkingin stefnir inn í með íslensku þjóðina. Þessi íslenski stuðull er með þeim lægstu í heiminum. Tekjuskipting hérlendis er með því sem jafnast gerist í veröldinni.  

Margrét hefur því annað tveggja; látið Stefán vinnufélaga sinn hafa sig að fífli eða látið pólitískt kapp, hlaupa sér í kinn, rétt fyrir kosningar.  

Undir lok greinarinnar fullyrðir Margrét að einn mesti jöfnuður í tekjudreifingu sem um getur í veröldinni og hún kallar "ójöfnuð" geri það að verkum að leiðir ríkisstjórnarflokkanna verði að skilja í vor. Hún segir af nógu að taka fyrir öfluga og umbótasinnaða ríkisstjórn, sem hefur hagsmuni allra Íslendinga að leiðarljósi. Framsóknarmenn hafa sýnt það í verki að þeir hafa traust, ábyrgð og skynsemi að leiðarljósi í málflutningi sínum og verkum, ólíkt stjórnarandstöðuflokkunum.  

Það skyldi þó aldrei vera að Margrét sé að biðja um gott veður hjá Framsókn núna nokkrum dögum fyrir kosningar? Samfylkingin þarf a.m.k. samstarfsaðila sem getur farið rétt með staðreyndir og útskýrt hugtök eins og GINI stuðul, þjóðareign, jöfnuð og ójöfnuð.

Af www.framsokn.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband