15.3.2007 | 09:21
Eldhúsdagur í þinginu
Hér á eftir fer ræða Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknar.
Hæstvirtur forseti Ríkisstjórnin hefur náð góðum árangri á kjörtímabilinu. Horfur í efnahagsmálum staðfesta það. Atvinnuöryggi er tryggt. Kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings vex áfram. Viðskiptahalli minnkar stórlega á þessu ári. Verðbólga minnkar á árinu niður að markmiði Seðlabankans.
Þannig lýkur þeirri þenslu sem ágerðist eftir að viðskiptabankarnir geystust inn á fasteignalánamarkaðinn. Nýjustu upplýsingar benda til þess að góð afkoma sé almennari um allt samfélagið hér á landi en í langflestum öðrum OECD-ríkjum. Jafnframt benda upplýsingar til þess að tekjuskipting sé jafnari hér en í langflestum öðrum löndum Evrópu.
Málflutningur stjórnarandstöðunnar lýsir neikvæðum viðhorfum, vanmati á nútímalegum aðstæðum Íslendinga og að sumu leyti úreltum afturhaldsviðhorfum. Ríkisstjórnin hefur nýlega ítrekað velferðar- og félagsmálastefnu sína. Hún hefur staðið að miklum umbótum í velferðarkerfunum. Auk þess nýtur almenningur ávaxtanna af lækkun virðisaukaskatts af matvöru og fleiri vörum og þjónustu.
Í samræmi við samkomulag við samtök aldraðra hafa framlög til velferðarkerfanna verið stóraukin og ennþá meira er framundan. Dregið verður áfram úr tekjuskerðingum og aðstoð við heimadvöl aldraðra stóraukin.Aukning fjárframlaga nemur tæpum 30 milljörðum króna á komandi misserum. Þetta er stærsta átak í málefnum aldraðra, öryrkja og annarra lífeyrisþega sem um getur. Í byggðamálum er þeirri stefnu fylgt að fela heimamönnum forsjá með vaxtarsamningum fyrir landshluta. Í byggðamálum þarf þó að taka betur á, og ber þar fyrst að nefna Vestfirði og Norðurland vestra og auk þess svæði á Norðaustur- og Suðausturlandi.
Gerðir hafa verið samningar sem tryggja stöðu landbúnaðarins, og umbætur í samgöngumálum eru á döfinni. Unnið hefur verið að jafnréttismálum. Á sviði umhverfismála eru margir stórmerkir áfangar að nást, til dæmis Vatnajökulsþjóðgarðurinn, og ný staða í utanríkismálum hefur verið skilgreind. Brátt lýkur mestu framkvæmdum Íslandssögunnar á Austurlandi og þær fara að færa þjóðinni arð, atvinnu og lífskjör. Um þessar framkvæmdir hefur margt verið sagt af lítilli hófsemi. Það er fullvissa mín að þær öfgar munu hverfa þegar þjóðin fer að njóta ávaxtanna. Ekki síst verða þessar framkvæmdir til að styrkja og efla atvinnulíf og allt mannlíf á landsbyggðinni.
Nú hafa orðið þau tímamót að mörkuð er leið til þjóðarsáttar um auðlindastefnu með undirbúningi heildaráætlunar um nýtingu og vernd auðlinda og fagurrar náttúru. Þessi heildaráætlun um nýtingu og vernd auðlinda og fagurrar náttúru mun marka tímamót. Tímabili virkrar stóriðju- og virkjanastefnu íslenskra stjórnvalda er lokið, en nú er framundan að taka skrefin inn í framtíðina með slíkri heildaráætlun sem setur ramma um framkvæmdir við nýtingu og vernd sem sameiginlegt heildarverkefni metnaðarfullrar þjóðar.
Hæstvirtur forseti Stjórnarflokkarnir hafa náð niðurstöðu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands, í samræmi við áralangar umræður og rannsóknir og á grundvelli stjórnarsáttmálans. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá tryggir að náttúruauðlindir Íslands verða um aldur og ævi þjóðareign, og öllu hugsanlegu tilkalli og yfirráðatilburðum annarra er hafnað og hrundið. Jafnframt er tryggt að staða nýtingarheimilda verður óbreytt, þannig að þær leiða ekki til beins eignarréttar heldur verða áfram afturkræfur afnotaréttur.
Þetta er áfangi í sögu íslensku þjóðarinnar og íslenska ríkisins. Náttúruauðlindir ættjarðarinnar fá sama sess og þjóðgarðurinn að Þingvöllum við Öxará. Stjórnarandstæðingar höfðu á fjölmiðlafundi óskað eftir einmitt þessari niðurstöðu, að einfalt og skýrt ákvæði á grundvelli stjórnarsáttmálans yrði afgreitt nú fyrir þinglok og sett í stjórnarskrá. Enn á ný vil ég nota þetta tækifæri til að heita á háttvirta þingmenn stjórnarandstöðunnar að koma til samstarfs við stjórnarflokkana um þetta mikilvæga mál.
Hæstvirtur forseti Framtíðarsýn Framsóknarmanna er skýr og glæsileg. Við viljum áfram stefna að framþróun og þroskun þekkingarsamfélags með menntasókn og batnandi og fjölgandi lífstækifærum fyrir alla þjóðina og allar byggðir landsins. Við viljum að Íslendingar hafi þann þjóðarmetnað að hér séu og verði menntun, lífskjör og lífstækifæri með því sem best gerist og hér verði áfram samkeppnisfært atvinnu- og viðskiptalíf, umhverfismál og orkunýting til fyrirmyndar - og glæsilegt gróandi þjóðlíf og menningarlíf.
Andstæðingar Framsóknarmanna reyna að gera lítið úr þessari framtíðarsýn. En tilraunir þeirra bera rangfærslum vitni. Áróður þeirra fellur um sjálfan sig eins og margendurtekið málþóf þeirra á alþingi hefur svo berlega sannað. Nú lítur svo út sem stjórnarandstæðingar trúi því að loforð um útgjaldaveislu á kostnað ríkissjóðs gangi í augu almennings.
En almenningur á mikilla hagsmuna að gæta í því að glutra ekki niður þeim árangri sem náðst hefur á síðustu árum. Því verður ekki trúað að almenningur láti blekkjast af fagurgala fyrir kosningar. Erindi Framsóknarflokksins hefur aldrei verið eins brýnt við íslensku þjóðina eins og einmitt nú. Framsóknarflokkurinn er alhliða framfaraafl á miðju stjórnmálanna. Við erum samvinnufólkið sem getur leitt samfélagsöflin að árangursríku samstarfi.
Íslendingar þurfa að njóta ábyrgðar og festu sem Framsóknarmenn hafa fram að færa. Styrkur Framsóknarflokksins sker úr um það hvers konar stjórnarstefna verður ráðandi í landinu eftir kosningarnar.
Á næstu árum þarf að framfylgja samræmdri auðlindastefnu sem mótuð verður með heildaráætlun um nýtingu og vernd. Þá þarf að framfylgja víðtækum ákvörðunum um umbætur og framþróun velferðarkerfanna í samræmi við óskir þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta.
Við þurfum að framfylgja metnaðarfullri stefnu í menningarmálum, fræðslu- og vísindamálum og í umhverfismálum. Við þurfum að halda áfram á markaðri braut í málefnum nýsköpunar og sprotafyrirtækjanna.
Við þurfum að starfa áfram undir kjörorðum Framsóknarmanna um vinnu, vöxt og velferð. Og við eigum að leggja sérstaka áherslu á að tryggja hér langvarandi jafnvægi og varanlegan stöðugleika í efnahags- og atvinnumálum.
Ég heiti á allt Framsóknarfólk að leggjast á eitt. Við héldum glæsilegt flokksþing fyrir skemmstu og þar stilltum við saman strengi fyrir þá baráttu sem framundan er. Það var glæsilegur hópur Framsóknarfólks af öllu landinu sem þar mótaði stefnu okkar.
Og ég heiti á alla landsmenn að hugsa sig vel um í komandi kosningum og velja þá sem eru traustir og ábyggilegir og ábyrgir. Framsóknarmenn eru þeir sem þeir segjast vera. Þjóðin þekkir störf, árangur og áræði Framsóknarmanna. Lífskjör langflestra hafa aldrei verið betri hér á landi en þau eru nú. Sóknarfæri þjóðarinnar hafa aldrei fyrr verið slík sem þau eru nú. Íslenska undrið vekur aðdáun erlendis.
Ólíkt því sem orðið hefur í mörgum nágrannalöndum okkar hefur atvinnuöryggi verið tryggt á Íslandi og mikil aukning í almennum kaupmætti fólks. Í þessum efnum urðu þáttaskil þegar Framsóknarmenn komust til valda.
Atvinnuöryggi og afkomuöryggi eru grundvallaratriði í stefnu Framsóknarmanna. Þessi mál eiga að ráða úrslitum um stjórnarstefnu að mati okkar.
Og þvert á móti því sem stundum er sagt hér er Ísland á alþjóðavettvangi viðurkennt að flestu leyti til fyrirmyndar um orkumál og umhverfisvernd.
Við skulum ekki glata því sem áunnist hefur. Við skulum sækja fram - saman á miðjunni.
Sláist í sóknarför með Framsóknarmönnum.
Ég þakka áheyrnina
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook