Náttúruverndarsinnar takið eftir

Með Kyoto bókuninni var sköpuð ný takmörkuð auðlind, en það er það magn gróðurhúsalofttegunda sem heimilt er að losa út í andrúmsloftið á ári hverju.

Með Kyoto bókuninni var ríkjum gert að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði einungis 10% meiri að meðaltali 2008-2012 en hún var viðmiðunarárið 1990, með þeirri undantekningu þó að stóriðju sem byggir á umhverfisvænum orkugjöfum og er staðsett í litlum hagkerfum er heimilt að byggjast upp að ákveðnu marki.

Hvað gerist eftir árið 2012 er alls óvíst. Líklegast mun það helst ráðast af því hvernig kosningabaráttan til forseta Bandaríkjanna mun þróast, en án þess að langstærsti einstaki losunaraðili gróðurhúsalofttegunda taki þátt, er erfitt að sjá málaflokkinn þróast svo neinu nemi.

Ríkisstjórnin hefur sett fram stefnu til að mæta þeim kvöðum sem þessi skuldbinding hefur í för með sér og felur hún í sér tillögur um eftirfarandi ráðstafanir á næstu árum sem leiða muni til lækkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða aukningar á bindingu kolefnis.
Þessar ráðstafanir eru:
-Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum, sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota.
-Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.
-Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.
-Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.
-Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.
-Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.
-Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Eru hér sem sagt lagðar til ýmsar aðgerðir sem eru margar hverjar flóknar í framkvæmd og ljóst að talsverður kostnaður hlýst af, ef Ísland á að geta staðið við skuldbindingar sínar. Hlýtur því að vera eðlileg að spyrja sig hvernig þeim kostnaði skuli mætt.

Afar ósanngjarnt er að þessi kostnaður sé greiddur af samneyslunni, enda getur ekki verið eðlilegt að einstaklingur sem gengur eða hjólar í vinnunna eigi að taka jafnan þátt í honum og sá sem keyrir sömu leið í bíl sem losar koltvísýring. Einnig er eðlilegt að fyrirtæki sem beitir umhverfisvænni tækni í sinni framleiðslu njóti þess gagnvart samkeppnisaðilum sínum.
Eðlilegt er að hér verði mengunarbótareglan viðhöfð, að sá sem mengi borgi. Stofnaður verði Loftslagssjóður, sem kosti rannsóknir og aðgerðir til að binda gróðurhúsalofttegundir eða að draga úr losun þeirra. Hugsanlegt væri að bjóða verkefni til bindingar kolefnis út og greiða fyrir hvert tonn sem bundið er á þann hátt, en styrkja aðra starfsemi um ákveðna upphæð á bundið eða sparað tonn. 

Tekjum í sjóðinn væri aflað væri í gegnum losunargjald sem lagður sé á hvert losað tonn og væri gjaldið óháð því frá hvaða starfsemi losunin á sér stað. Ef losun Íslands stefndi á ranga braut er gjaldið stjórntæki til að takmarka útblásturinn með hagrænum stjórntækjum. Einnig væri auknir losunarkvótar sem fengust með íslenska ákvæðinu svokallaða boðnir upp, þegar efnahagsástandið þolir frekari stóriðjuuppbyggingu.
Á þennan hátt er skapaður hagrænn hvati til umhverfisverndar, þannig að þeir sem haga gjörðum sínum á umhverfisvænan hátt njóta þess á eigin skinni og þeim, sem stunda umhverfisbætandi starfsemi, er skapaður eðlilegur rekstrargrundvöllur fyrir henni og þeir, sem eru að nýta sér losunarkvóta Íslands, greiði fyrir aðgang að þeirri takmörkuðu auðlind.

Riddarar stjórnarandstöðunnar

Almenningi er í fersku minni umfjöllunin og þrýstingurinn um fjárhagslegan stuðning við Byrgið sem tröllreið þjóðfélaginu fyrir aðeins fáeinum misserum. Stjórnarandstaðan kvartaði sáran undan því að tæknileg atriði eins og samningar stæðu í vegi fyrir því að lagt væri inn á reikning forstöðumannsins í hvelli og töldu aldrei nógu vel gert við Byrgið. Auðvelt er að fletta upp í skjalasafni Alþingis og verða sér úti um þau ummæli sem féllu í sölum þingsins. Starfsmenn og vistmenn Byrgisins fjölmenntu á palla Alþingis til að fylgjast með fjárlagaumræðu þar sem málefni Byrgisins voru til umfjöllunar. Lögreglan hvatti stjórnmálamenn til þess að halda Byrginu gangandi, fyrrverandi landlæknir, sem gegndi stöðu verndara í Byrginu, hvatti til þess sama og hálfur þingheimur auk forseta Íslands lét sig málefni Byrgisins varða. Bar allt að sama brunni. Í Byrginu var unnið starf sem mikil þörf var fyrir. Þróttur og þrautseigja einkenndi framgang starfsmanna Byrgisins og slíkt talið bæði göfugt og aðdáunarvert. Að þessari niðurstöðu kemst matsmaður utanríkisráðuneytisins í hinni „kolsvörtu“ og „leynilegu“ skýrslu, sem fjölmiðlar hafa haldið á lofti og er hún þó hvorugt. Skýrslan er nefnilega meðmælaplagg með Byrginu þar sem hvatt er til áframhaldandi stuðnings við Byrgið þótt jafnframt séu lagðar til úrbætur. Fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins kunni vissulega ekki að færa bókhald en starf hans var á þeim tíma talið bæði göfugt og aðdáunarvert. Ekki kom nokkrum manni í hug misferli eða níðingsverk, hvorki framsóknarmönnum né öðrum, og alls ekki matsmanninum sem lagði til að Byrgið yrði styrkt með milljónatugum á ári.
Nú ber svo við að stjórnarandstaðan hefur hlaupist frá ábyrgð í málinu, hefur hátt í þinginu og kannast lítt við stuðning sinn við Byrgið hér á árum áður. Össur Skarphéðinsson gekk svo langt að ota ógnandi vísifingri að prúðmenninu Jóni Kristjánssyni og hafa uppi stór orð um „sekt“ framsóknarmanna í málinu. Rétt eins og þegar formaður Samfylkingarinnar taldi óhæfuverk barnaníðinga vera dæmi um vonda ríkisstjórn!
Það var þessi sami formaður sem hóf að styðja Byrgið úr borgarstjórastóli með eftirlitslausum fjárframlögum úr borgarsjóði. Þá hefur Guðjón A. Kristjánsson farið með veggjum undanfarið enda einn helsti hvatamaður þess á þingi að Byrgið fengi fé á fjárlögum auk þess sem hann bauð forstöðumanninn fram til þingsetu í síðustu alþingiskosningum.
Hér er um grafalvarleg mál að ræða og stjórnarandstöðuþingmenn notfæra sér mannlegan harmleik til þess að slá sig til riddara. Slíkt er með öllu óþolandi og þingmönnum til háborinnar skammar. Málflutningur þeirra breytist dag frá degi, stundum er það eftirlit með fjárreiðum Byrgisins og stundum meðferðarúrræðin sem henta þeim ekki. Í vikunni voru það svo ungar mæður, sem verið höfðu skjólstæðingar Byrgisins, sem háttvirtur þingmaður Össur Skarphéðinsson barði sig til riddara með. Þrátt fyrir málflutninginn er þó hollt fyrir kjósendur að sjá þingmenn sýna sitt rétta eðli.
Félagsmálaráðherrann Magnús Stefánsson erfði málið frá forverum sínum. Hann hefur tekið fulla ábyrgð á því og brást strax hárrétt við með því að koma málinu í eðlilegan farveg. Yfirvegun og öryggi hafa einkennt öll hans viðbrögð og hann hefur ekki látið ósvífni stjórnarandstöðunnar koma sér úr jafnvægi. Ef litið er til viðbragða ráðherrans þá eru þau eftirfarandi:
1. Skjólstæðingum Byrgisins var fundið nýtt skjól þegar Byrginu var lokað.
2. Skv. lögum um hlutverk sveitarfélaga hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar nú í samvinnu við félagsmálaráðuneytið sett á fót vinnuhóp sem vinnur að framtíðarlausn fyrir þá sem sökum langtíma áfengis- og vímuefnaneyslu hafa ekki í nein hús að venda.
3. Kærumál á hendur forstöðumanninum sjálfum eru í réttum farvegi og fá eðlilega meðferð hjá lögregluyfirvöldum og hugsanlega dómskerfi í framhaldinu.
4. Fjárlaganefnd vinnur að tillögum sem varða eftirlit með verkefnum sem njóta stuðnings nefndarinnar.
5. Félagsmálanefnd skoraði á ríkisstjórnina að skipa áfallateymi sem skipað verður sérfræðingum í geðheilbrigðismálum til að veita þeim tafarlausa aðstoð í heilbrigðis- og félagskerfinu sem eiga um sárt að binda eftir vist sína í Byrginu. Ríkisstjórnin hefur brugðist við og falið sérfræðingum Landspítala háskólasjúkrahúss undir forystu Bjarna Össurarsonar, yfirlæknis vímuefnadeildar geðsviðs spítalans, að annast það verkefni.
Þetta kallar stjórnarandstaðan að hlaupast undan merkjum og gólar enn stríðsfyrirsagnir um sekt annarra. Þeirra eigin sekt er þó líklega ástæðan fyrir þeirri ómálefnalegu umræðu og því pólitíska keiluspili, með viðeigandi útúrsnúningi, sem stjórnarandstöðuþingmenn bjóða almenningi upp á þessa dagana.  Meiri riddaramennskan það!

Auðlindanýting og náttúruvernd í nýju ljósi

Nú hafa þau Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra mælt fyrir breytingum, sem munu færa umhverfismál og auðlindanýtingu þjóðarinnar inn á nýtt plan og í átt til meiri sáttar í samfélaginu. Ekki veitir af.
Það kom ekki á óvart að forystumaður þess flokks sem reynt hefur að koma því óorði á Framsóknarflokkinn að hann beri hag íslenskrar náttúru ekki fyrir brjósti, skuli rjúka eins og hani á prik og gala um ómöguleika málsins úr ræðustóli Alþingis.
Að sjálfsögðu fer víðsfjarri að sú sé raunin. Með þessum frumvörpum er Vinstri Grænum alvarlega ógnað enda sú sýn, sem Framsóknarflokkurinn kemur með, allt í senn; skynsamleg fyrir nýtingu, skynsamleg og varkár gagnvart vernd íslenskrar náttúru og auðlinda, snjöll og umfram allt framkvæmanleg. Eitthvað sem stjórnarandstaðan hefur ekki komið auga á hingað til, í það minnsta hefur hún svikið þjóðina um að deila því með sér.
Verið er að setja af stað ferli sem styrkir enn frekar það ferli sem fór af stað undir stjórn Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar árið 1999 og kallað hefur verið Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðhita. Er miður hve langan tíma það ferli hefur tekið, en frumvörpin gera ráð fyrir að því ljúki í seinasta lagi árið 2010. Er það vel.
Skilgreina á hvaða auðlindir á að nýta og hverjar á að vernda og skilgreindir verkferlar um hvernig eigi að standa að úthlutun þeirra gæða og gjaldtöku fyrir þau. Er hér sem sagt verið að leiða í lög auðlindagjald, sem ákvarðað verður með útboði og mun því örugglega fást skynsamlegt verð fyrir þær takmörkuðu auðlindir sem þjóðin á, og þar með eðlilegt markaðsverð fyrir þær auðlindir sem eru í einkaeigu.
Verður að horfa á þetta mál með þeim augum að í bígerð er frumvarp um svokallað Landsskipulag, sem ætlað er að samþætta áætlanir ríkisins og sveitarfélaganna um landnotkun og verndun, uppbyggingu innviða, mannvirkja og hvers háttar starfsemi. Vinna þessa hóps eru sjálfsagður hluti af því skipulagi, ásamt öllum öðrum áætlunum ríkisins, t.d. á sviði samgangna, fjarskipta, veitna og annara innviða, náttúruverndar og svo mætti lengi telja.
Einn galli er þó á gjöf Njarðar og þar hafa stjórnarandstæðingar rétt fyrir sér. Frumvörpin gera ekki ráð fyrir að réttindi, sem þegar er búið að úthluta séu afturkölluð, meðan ferlið er í gangi. Það verður með öðrum orðum ekki hægt að trekkja tímann afturábak.  Afturkræf lög myndu þannig skapa ríkinu mikla skaðabótaskyldu, svo nemur fleiri milljörðum eða milljarðatugum. Hvaðan vill stjórnarandstaðan taka þá peninga? Úr sjúkrahúsunum, úr almannatryggingakerfinu, úr vegakerfinu eða hvaðan?

Kosningamogginn

Reykjavíkurbréf
Því hefur verið haldið fram að reglulega, og ekki síst þegar að nær dragi kosningum, sleppi Morgunblaðið hlutleysisgrímu sinni og leggist duglega á árarnar með Sjálfstæðisflokknum. Reykjavíkurbréf Moggans í gær var að mörgu leyti engin undantekning á því, t.d. með því að rifja upp rykfallnar dáðir Birgis Kjarans á sviði náttúruverndarmála og freista þess þannig að draga fram eilítið grænan lit á þennan heiðbláa flokk. Enda ætti hann trúlega í nokkrum erfiðleikum ef fram kæmi náttúruverndarframboð sem hefði frjálslynda og borgaralega skírskotun.
Í þessu ágæta bréfi fór Mogginn hins vegar vítt og breitt yfir hið pólitíska litróf og spurði margra áleitinna spurninga sem fróðlegt væri að fá svör við. Sumar þeirra kunna að vera hins vegar að vera erfiðar fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Kjalvegur og hvalveiðar
Meðal þess sem Mogginn tók upp var hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins myndi bregðast við umræðum um vegagerð á hálendinu. Sem kunnugt er hafa nokkrir einkaaðilar stofnað félagið Norðurveg ehf. sem hefur það að markmiði að undirbúa mögulega lagningu hálendisvegar til þess að stytta vegalengdina á milli Suður- og Suðvesturlands annars vegar og Norðurlands hins vegar. Ætlunin er að leggja veginn í einkaframkvæmd og fjármagna hann með veggjöldum. Vakti Morgunblaðið athygli á því að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefði ekki talað með skýrum hætti um afstöðu sína til þessa máls og raunar að forysta flokksins hefði ekki brugðist við málinu heldur.
Sömuleiðis vakti höfundur Reykjavíkurbréfs athygli á því að ekki væri vitað hvort Sjálfstæðisflokkurinn sem slíkur væri hlynntur hvalveiðum eða hvort þær væru einkamál Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra. Er það ítrekun á fyrri gagnrýni Morgunblaðsins á hvalveiðar Íslendinga sem blaðið telur hafa skaðað atvinnugreinar og ímynd landsins verulega.
Styður Sjálfstæðisflokkurinn það ekki að auðlindir sjávar verði sameign íslensku þjóðarinnar?
Það sem hvað mesta athygli vekur þó í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi er gagnrýni blaðsins á að ekki hafi enn verið efnt ákvæði í stefnuyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka sem kveður á um að binda skuli í stjórnarskrá að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Gengur Mogginn svo langt að fullyrða að enginn flokkur standi gegn því að tryggja breytingu stjórnarskrárinnar í þessa veru nema Sjálfstæðisflokkurinn. Er hér um harkalega aðfinnslu að ræða en sanngjarna, þar sem núverandi stjórnarflokkar hafa lagt ríka áherslu á það í samstarfi sínu sem nú hefur varað í hartnær 12 ár að standa við stjórnarsáttmálana og uppfylla kosningaloforð sín til hins ítrasta. Greinarhöfundur heldur svo gagnrýninni áfram og vekur athygli á að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki hafa forystu um að hækka auðlindagjald svo neinu verulegu nemi enda hafi flokkurinn lagt of mikla áherslu á stóru milljarðarfyrirtækin og gleymt að styðja við bakið á einyrkjum í atvinnulífinu eins og trillukörlunum.
Við hvað er Mogginn hræddur?
Skilja má höfund Reykjavíkurbréfs sem svo að stjórnmálaflokkarnir, og þá er sjónum einkum beint að Sjálfstæðisflokknum ef miðað er við Kremlarlógíu blaðsins, hafi komist upp með að vera ekki nógu skýrir í málflutningi sínum og þá ekki hvað síst þegar um grundvallarmál sé að ræða sem varði fólkið í landinu miklu. Forysta Sjálfstæðisflokksins með Geir H. Haarde í broddi fylkingar þurfi því að koma fram á sjónarsviðið og tala skýrt. Að öðrum kosti kann framboð fólks eins og Margrétar Sverrisdóttur og annarra sem vilja höfða til fólks hægra megin við miðju að ræna fylgi frá Sjálfstæðisflokknum.
Af þessu má ljóst vera að flokkar bæði til vinstri og hægri í íslenskri pólitík eru óttaslegnir vegna mögulegra nýrra framboða. Vinstri flokkarnir voru þannig með sérlega útsendara á fundi Framtíðarlandsins í liðinni viku sem töluðu niður framboð samtakanna, fólk eins og Kolbrúnu Halldórsdóttur alþingismann Vinstri-grænna, Hjörleif Guttormsson og Dofra Hermannsson framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar. Mogginn kýs hins vegar að sinna forvörnum og ráðleggur Sjálfstæðisflokknum að tala skýrar og hlusta á raddir þeirra sem fara með atkvæðisréttinn. Það geri flokkurinn ekki í dag.

Forseti Íslands og ábyrgð ráðherra

Hún er skrýtin umræðan um setu forseta Íslands í Þróunarráði Indlands og virðist Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, eiga erfitt með að greina hver beri stjórnsýslulega ábyrgð á embættisverkum forseta Íslands. Þannig hefur hann krafið Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra svara um almennar embættisfærslur forseta Íslands. Og af hverju skyldi það nú vera?
Í reglugerðinni um Stjórnarráð Íslands segir nefnilega skýrum orðum að forsætisráðuneytið fari með mál er varða embætti forseta Íslands. Þessi skipan er vitaskuld ákaflega eðlileg þar sem forsætisráðherra er sá ráðherra sem forseti Íslands hefur kvatt til forsætis, eins og það er orðað í stjórnarskránni.
Meginábyrgð á málefnum sem varða forsetaembættið hvílir þannig á forsætisráðherra, en ekki utanríkisráðherra eins og formaður utanríkismálanefndar virðist halda, sem og reyndar ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins.
Hins vegar er ljóst að einstök fagráðuneyti bera ábyrgð á embættisgjörðum forseta Íslands í þeim málaflokkum sem undir þau heyra. Þannig ber utanríkisráðherra að sönnu ábyrgð á embættisverkum forseta Íslands í utanríkismálum, þ.m.t. setu forseta Íslands í áðurnefndu Þróunarráði Indlands.
Í dag, föstudaginn 9. febrúar,  greindi Valgerður Sverrisdóttir utanríkismálanefnd frá tildrögum og eðli málsins og ekki á ráðherranum annað að heyra en að seta forseta Íslands í ráðinu sé af hinu góða og embættinu samboðið. Hins vegar hafi forsetaembættinu láðst að eiga eðlilegt samráð við utanríkisráðuneytið í aðdraganda ákvörðunar forsetans og embættin vinna að því að bæta verkferla og boðleiðir. Sem er auðvitað þarft og hið besta mál, enda mikilvægt að nýta forseta Íslands til góðra verka á erlendri grundu.
En af hverju hefur Halldór Blöndal svona mikinn áhuga á forseta Íslands og embættisverkum hans? Skyldu gamlar erjur, eins og synjun forseta Íslands að staðfesta lög um fjölmiðla, hafa eitthvað með sýndan áhuga að gera? Eða er hér á ferð gamalkunnur pirringur sjálfstæðismanna yfir því að Ólafur Ragnar Grímsson sé yfirleitt forseti Íslands? Átti að freista þess að fá Framsóknarflokkinn með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar til að taka slag, sem Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að taka.
Það skyldi þó ekki vera hin eiginlega ástæða?

Spáð í kaffibollann

Nokkurs taugatitrings er farið að gæta á vinstri væng stjórnmálanna þegar aðeins eru um þrír mánuðir til kosninga. Samfylkingin hefur látið á sjá í skoðanakönnunum að undanförnu og frelsarinn sem átti að losa vinstri menn úr álögum og sameina þá til sigurs er greinilega farinn að örvænta. Ekki að ástæðulausu því þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var kölluð til í landsmálapólitíkina fyrir fjórum árum mældist fylgi Samfylkingarinnar afar hátt en nú er frægðarsólin heldur tekin að hníga. Til marks um það má sjá að í byrjun mars 2003 mældist Samfylkingin í ríflega 40% fylgi hjá Þjóðarpúlsi Gallup en er nú aðeins 24% samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði í síðasta mánuði. Þetta er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum fyrirtækisins á þessu kjörtímabili. Það er því um pólitískt líf eða dauða Ingibjargar Sólrúnar að tefla að loknum kosningum í vor. Ef Samfylkingin nær ekki að mynda ríkisstjórn að kosningum loknum er hætt við því að flokksmenn geri kröfu um að drottningin víki og að einhver nýr og ferskari taki við (eða Össur/Jón Baldvin - eitthvað sem meira að segja Kolbrún Halldórsdóttir á vart von á!). Er þá hætt við að Ingibjörg muni sakna gullaldarára sinna sem borgarstjóri og súta mjög að hafa látið svila sinn telja sig á að taka varaþingmannssæti á lista fylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir fjórum árum.
Kostir Samfylkingarinnar
En hvaða kostir eru í stöðunni? Fyrir það fyrsta hefur Ingibjörg Sólrún greinilega metið það sem svo að hún yrði örugglega send í skammarkrókinn ef Steingrímur Joð og félagar hlytu fleiri þingsæti en hennar eigin flokkur. Því þyrfti hún að reyna að ná því fylgi sem Samfylkingin hefur misst þangað til baka aftur (forsætisráðherrastóllinn gæti jú verið í húfi). Í því ljósi verður m.a. að skoða breytta strategíu hennar í stóriðju- og virkjanamálum, þrátt fyrir að henni hafi ekki tekist að taka allan flokkinn með sér í þá ferð. Með sömu fléttu vill hún forðast það að missa enn frekara fylgi til mögulegs framboðs klofnings úr Framtíðarlandinu. Þá er því spáð hér að við eigum örugglega eftir að verða vitni að fleiri útspilum í þessa átt, án þess þó að hjólað sé með mjög beinskeittum hætti í félagana í villta vinstrinu, enda hlýtur stjórnarsamstarf til vinstri að vera fyrsti kostur formannsins og „hæfilegir“ fylgisyfirburðir umfram Vinstri-græna því fullnægjandi.
Ef litið er til mögulegs vinstra samstarfs hlýtur Samfylkingin að geta hugsað sér að mynda stjórn með Vinstri-grænum, að því gefnu að Samfylkingin njóti fylgis umfram þá. Flokkarnir tveir naga augljóslega fylgi hvor af öðrum og geta því tæplega myndað ríkisstjórn án utanaðkomandi aðstoðar. Ekki hjálpa ný smáflokkaframboð til í þeim efnum. Fyrsti kostur hefði sennilega verið að leita til Frjálslynda flokksins til að tryggja fullnægjandi meirihluta en í ljósi brotthvarfs „skynsama“ armsins þaðan og ógeðfelldra tilburða meintra „frjálslyndra“ gagnvart innflytjendum er hæpið að þangað sé nokkuð gott að sækja. Ef nýir flokkar njóta ekki þeim mun meira fylgis hlýtur Ingibjörg Sólrún því að leita til hinnar hófsömu miðju Framsóknarflokksins með styrk til handa vinstri flokkunum.
Hinn kosturinn í stöðunni fyrir Ingibjörgu Sólrúnu er að kyngja stoltinu (og tvíburaturnatali, meginandstæðingsfrösum o.fl. um leið) og mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hætt er við að grasrót Samfylkingarinnar yrði brugðið við og mikil óánægja myndi magnast upp en formannsstólnum væri þó trúlega borgið um hríð.
Vinstri-grænir
Kostir Steingríms Joð eru heldur betri en Ingibjargar. Steingrímur var ráðherra í vinstri stjórn nafna síns Hermannssonar og getur því trúlega vel hugsað sér slíkt samstarf að nýju. Hann gæti eflaust líka kyngt innflytjendastefnu „frjálslyndra“ til að mega gegna ráðherraembætti einu sinni enn áður en hann sest í helgan stein. Þá hafa sumir Vinstri-grænir talað fjálglega um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og vafalítið gæti slíkt samstarf enst í ár eða tvö. Stutt samstarf myndi á hinn bóginn gefa þeim orðrómi byr undir báða vængi að Vinstri-grænir séu einfaldlega ekki stjórntækir, líkt og fordæmi frá sveitarstjórnarstiginu hafa gefið til kynna. Ef flokkurinn hrökklaðist þar að auki úr stuttu stjórnarsamstarfi er hætt við að Steingrími þætti mál að linni og finndist ríflega 25 ára þingseta vera nægjanleg. Leitin að arftakanum gæti hins vegar orðið flokknum sársaukafull enda skoðun flestra að foringinn haldi merki flokksins á lofti nær einsamall og lítið púður væri í Vinstri-grænum án hans.
„Frjálslyndir“
Flokkur Guðjóns Arnars er í bullandi tilvistarkreppu. Hófsemin og stöðugleikinn (það sem til var af hvoru tveggja) hvarf með Margréti Sverrisdóttur og fordómar og andúð gegn innflytjendum vaða uppi hjá þeim hópi sem vann sigur í kjörkassaleikfiminni fyrir skemmstu. Að flokkurinn kalli sig frjálslyndan er orðið mikið rangnefni eða hreinlega blekking. Fyrir vikið er flokkurinn ekki eins álitlegur til samstarfs og áður og virðist sem hann ætli að mála sig enn frekar út í horn með ásökunum á hendur öðrum flokkum um hræðsluáróður gagnvart „frjálslyndum“. Má þar til að mynda vitna í skrif Sigurjóns Þórðarsonar gegn Vinstri-grænum í Blaðinu í gær. Er þá enn ótalið að „frjálslyndir“ hafa tekið við þeim Valdimar Leó Friðrikssyni og Kristni H. Gunnarssyni. Hæpið er að slík samsuða úr mörgum ólíkum flokkum muni bæta samstöðuna eða auka uppbyggilegar og jákvæðar umræður og stefnumótun.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðismenn munu fyrst og síðast miða alla sína strategíu við að halda völdum áfram. Takist þeim það gæti farið svo að flokkurinn færi með meirihluta í stjórnarsamstarfi í 20 ár samfellt. Það færi þá eftir samstarfsflokknum hvort íslenskt samfélag þróaðist með svipuðum hætti og til að mynda í tíð Viðeyjarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, eða hvort stjórnartilburðirnir yrðu nær því að verða eins konar endurspeglun á meirihlutasamstarfi því sem var hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri-grænum í Skagafirði og er nú í Mosfellsbæ. Þá skiptir miklu máli í þessu samhengi hvort Geir Haarde takist að halda flokknum sameinuðum og samstíga á næstu árum eða hvort óánægja með „félagshyggjudaður“ og hyglun annars armsins umfram hinn verði til þess að formannstíð Geirs verði hlutfallslega mjög stutt miðað við það sem kemur til með að verða a.m.k. ríflega 20 ára þingseta hans. Ljóst er að ef til þess kemur horfa margir til þess að erfðaprinsinn sé fremur Bjarni Benediktsson en varaformaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn er elstur stjórnmálaflokka á Íslandi með ríflega 90 ár að baki. Flokkurinn hefur ávallt verið á miðju stjórnmálanna og tekið ábyrga afstöðu byggða á málefnalegum sjónarmiðum umfram kreddubundnar skoðanir sem finnast á sitt hvorum væng stjórnmálanna. Almenningur veit fyrir hvaða sjónarmið flokkurinn stendur. Á síðustu árum hafa nýir flokkar hins vegar reynt að taka sér stöðu nær miðjunni og ná til sín fylgi þaðan. Er skemmst að minnast daðurs í þá átt af hálfu Samfylkingar og bleiks framboðs Sjálfstæðisflokksins sl. vor. Ef til vill hefur þetta tekist að nokkru leyti. Framsóknarmenn eru hins vegar alls óhræddir og vita sem er að kjósendur vilja þegar allt kemur til alls búa við málefnalega umræðu, festu, traust og stöðugleika.

Skattalækkun og matvöruverð

Í marsbyrjun verða tímamót í verðlagsmálum matvöru á Íslandi og reyndar snerta breytingarnar einnig fleiri vörur og þjónustu. Virðisaukaskattur verður lækkaður niður í 7%, í flestum atvikum úr 14% en í nokkrum tilfellum úr 24,5%. Auk þess verða vörugjöld lækkuð og 40% lækkun tolla verður á ýmsum kjötvörum, samhliða samningum við Evrópusambandið um útflutning búvöru þangað.
Þessar breytingar styðjast annars vegar við sterka stöðu ríkissjóðs og hins vegar við þá staðreynd að nú hefur hagsveiflan snúist þannig frá fyrri þenslu að ráðandi rök benda til þess að lækkanir þessar muni skila sér til almennra neytenda í landinu.
Hér er um mjög verulega kjarabót að ræða, sem nýtist öllum og ekki síst þeim sem minnst hafa á milli handanna. Þessi kjarabót nú bætist við aðrar skattalækkanir, hækkun skattleysismarka og þær miklu umbætur sem eru orðnar nýlega og verða áfram í málefnum aldraðra, öryrkja og lífeyrisþega, með víðtækum aðgerðum ríkisstjórnarinnar upp á síðkastið.
Algengasta verðbreyting 1. mars er um 7% lækkun. En þegar tillit er tekið til annarra lækkana í þessum aðgerðum má reikna heildaráhrifin 9–12% verðlækkun og um 2,6% lækkun í vísitölu neysluverðs.
Auk matvöru lækkar virðisaukaskattur af rafmagni til húshitunar, af gistiþjónustu, af bókum, ritföngum og tímaritum og af hljómdiskum.
Auk þessa hafa framleiðendur mjólkurafurða boðað verðstöðvun um skeið. Kemur þetta til viðbótar við aukinn innflutning kjötvöru sem áður er getið. Bændur hafa sýnt mikilsvert fordæmi og taka á sig byrðar og skuldbindingar við þessar miklu kjarabætur.
Ýmsir hafa látið í ljós efasemdir um að milliliðir og verslunin muni hirða mest af þessu. En slíkt kemur ekki til mála, þar sem um skattalækkanir er að ræða. Skattar eru alveg sér gagnvart verðmyndun vörunnar og ótengdir öðrum verðbreytingatilefnum og aðilar geta á engan hátt laumað einhverjum öðrum hækkunum inn á móti skattabreytingum. En mikilvægt er að allur almenningur fylgist mjög vel með framvindu mála.

Tvær hliðar á sama krónupeningi

Eitt mál sem hefur verið á fleygiferð í umræðunni undanfarið er krónan. Vart líður sá dagur að ekki sé frétt eða fyrirlestur um stöðu hennar í hinu alþjóðavædda umhverfi íslenskra fyrirtækja.
Hagfræðielíta landsins ræðir öðru vísi um þessi mál nú en fyrir nokkrum árum, jafnvel bara nokkrum misserum. Í september talaði Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunnar, um að halda bæri í krónuna en í lok nóvember var komið annað hljóð í strokkinn.
Sum þeirra raka sem áður voru talin gegn upptöku evru eru það síður nú. Þau voru lítill hreyfanleiki vinnuafls, ósveigjanleiki launa og önnur hagsveifla en í ESB. Nú streymir vinnuaflið til Íslands sem aldrei fyrr, launin hafa reynst sveigjanlegri vegna laungreiðslna umfram lágmarkstaxta, auk þess sem síðustu tvær hagsveiflur á Íslandi hafa ekki komið úr sjávarútveginum. Hagsveiflan slær meir í takt við þá evrópsku, þó svo að hún sé mjög mismunandi á milli aðildarríkja ESB.
Sumir spyrja hverju sjálfstæð peningastefna hafi skilað? Hefur reynslan af henni verið góð eða slæm? Flest stóru fyrirtækin telja að krónan skerði samkeppnishæfni þeirra og í vikunni sagði forstjóri Kaupþings t.a.m. að krónan rýrði traust á fyrirtækinu.
Þeir sem lengst ganga í málflutningi sínum vilja skella allri skuld á krónuna vegna þess sem betur mætti fara á Íslandi. Nefna þeir m.a. hátt vöruverð, óhagstæðan viðskiptajöfnuð, verðbólgu, himinháa vexti og minni samkeppni máli sínu til stuðnings.
Málið er flóknara.
Krónan hefur reynst okkur vel í gegnum tíðina á margan hátt og hefur líklega skilað okkur í gegnum núverandi þensluskeið á mildari hátt en hefði hennar ekki notið við. Það er almennt viðurkennt að hagsveiflurnar væru ýktari og lengri hefðum við evru. Það er líka augljóst að vaxtastig Seðlabanka Evrópu myndi henta okkur verr við þær aðstæður sem nú ríkja hér á landi en innlendir stýrivextir.
Þessi mál eru því flókin, vandmeðfarin og viðkvæm. Þau þarf að ræða. Á yfirvegaðan hátt. Ekki í skotgröfunum. Ekki í örvæntingafullri atkvæða- og stefnuleit. Ekki í leit að “patentlausnum”. Heldur með langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
Þetta hefur Framsóknarflokknum einum flokka tekist á undanförnum árum. Forráðamenn hans hafa rætt tengsl Íslands og ESB á opinn og heiðarlegan hátt. Á vettvangi ríkisstjórnar, innan flokksins, meðal atvinnulífsins og í háskólasamfélaginu. Á annað þúsund blaðsíður af fróðleik um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og tengsl við ESB liggja eftir Framsóknarflokkinn. Og ekki einungis um mál sem heyra undir þau ráðuneyti sem hann hefur stýrt. Hann hefur einnig haft forgöngu um umræður og skýrsluskrif um málefni sem hugsanlega hefðu staðið nær öðrum.
Samfylkingin stekkur alltaf til þegar vindar virðast hagstæðir og vill taka stímið beint á aðild að ESB. Sjálfstæðismenn virðast smám saman vera að losna úr þráhyggjuneti fortíðarinnar. Þar á bæ virðist tónninn ekki vera eins hatrammur og áður. Ekkert tal um “ólýðræðislegustu skrifæðisbákn sem fundin hafa verið upp” heyrist nú. Tóninn er mildari, fordómalausari og opnari. Kannski vegna atvinnulífsins. Ef til vill vegna þess að jafn ólíkir aðilar og ASÍ og framkvæmdastjóri LÍU vilja evru, auk allra bankanna og fyrirtækjanna.
Eða skyldi það vera vegna framgöngu Framsóknarflokksins og forystumanna hans? Draga menn ekki dám af sínum sessunaut? Sækjum fram í styrk en ekki veikleika. Skoðum alla kosti vandlega og rjúkum ekki til að vanhugsuðu máli. Tökum skrefin hægt en örugglega með langtímahagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Það er stefna og verklag Framsóknarflokksins.

Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband