Flett ofan af Össuri

Á heimasíðu sinni segir Össur Skarphéðinsson 5. mars, um auðlindamálið: "Það sem er athyglisvert við þetta allt saman er að þetta er sama Framsókn og lyfti ekki litla fingri til að ná málinu fram í stjórnarskrárnefnd þar sem Samfylkingin tók málið ítrekað upp - og hékk á því einsog hundur á roði. Þá var engu hótað, heldur bugtað og beygt sig fyrir Sjálfstæðisflokknum sem barði Framsókn til að fallast á að engum tillögum yrði skilað fyrr en heildarendurskoðun væri lokið á stjórnarskránni. "

Í ræðu í þinginu á fimmtudaginn var, þann 1. mars segir hann hins vegar: "Við vitum auðvitað sem höfum komið að þessum málum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið einn gegn því að stjórnarskránni yrði breytt með þessum hætti. Þessi yfirlýsing hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra felur því í sér að hann hefur í reynd lofað því að ef tillaga kemur fram um þetta á þinginu muni Framsóknarflokkurinn beita öllu afli sínu til þess að hún nái fram að ganga. "

Össur Skarphéðinsson hefur því gerst sekur um að haga sannleikanum þannig að hann sjálfur fái sem mesta athygli út á málið.  Hjá Samfylkingunni virðist því vera alveg sama hvað sagt er, því hávaðinn er það sem skiptir máli á þeim bænum.  Hafa vitleysuna yfir nógu oft í þeirri von að almenningur fari að trúa henni. Heldur Össur að kjósendur séu hálfvitar?

Össur má reyndar eiga það að hann orðar hlutina skemmtilega sbr. að Samfylkingin hafi hangið á málinu eins og hundur á roði. Það var hins vegar þannig að Framsókn átti þetta roð skuldlaust en Samfylkingin reyndi að eigna sér það í þeirri von að það nennti enginn að skoða það sem Össur hefur áður sagt í málinu.  Og Ingibjörg mágkona hans hleður sólarrafhlöðurnar á Kanarí á meðan hann hangir á roðinu heima.


Auðlindamál

Forsætisráðherra útilokar ekki í dag, 6. mars, að Sjálfstæðismenn standi við gerða samninga um að auðlindaákvæðið fari inn í stjórnarskrá nú fyrir kosningar, eins og Framsóknarmenn hafa krafist. 

Stjórnarandstaðan vill reyndar endilega fá að spila með og hélt heilan blaðamannafund um málið að Ingibjörgu Sólrúnu, formanni Samfylkingarinnar, fjarstaddri.  Hún er að sóla sig á Kanarí.  Eins og fram kom í Íslandi í dag, í gær, taldi formaður stjórnarskrárnefndarinnar það ekki í sínum verkarhing að mynda nýjan meirihluta með stjórnarandstöðunni inni í stjórnarskrárnefndinni og svíður Össur o.fl. eflaust undan því. 

Það er hins vegar athyglivert að lesa um staðreyndir málsins á visir.is þar sem gerð er tilraun til þess að útskýra feril málsins.  Þar segir: "Málið hefur ekki verið rætt í stjórnarskrárnefnd síðan í febrúar og segja þingmenn Sjálfstæðisflokks að Framsókn hafi ekki lagt mikla áherslu á það í viðræðum nefndarinnar." Þetta er haft eftir þingmönnum Sjálfstæðismanna. 

Nett ábending til blaðamanna Vísis. Hvernig væri að spyrja framsóknarmenn sjálfa? Þeir geta bætt heilmiklu við stjórnmálaskýringar ykkar.


Að afloknu flokksþingi

Flokksþing framsóknarmanna fór sérstaklega vel fram um síðustu helgi.  Á milli 500 og 600 manns mættu og var virkni í nefndastarfi svo mikil að á föstudagskvöldið kl. 22:00 voru enn 120 manns að vinna.  Mikill hugur var í mönnum, frambjóðendum og öðrum og var Súlnasalurinn orðinn fullur af fólki kl. 10 á laugardagsmorgni, til að halda þingstörfum áfram.  Margir þeirra höfðu samt verið í hinu víðfræðga og margrómaða SUF partýi á föstudagskvöldið þar sem Bjarni Harðar fór svo á kostum að undir tók í húsinu. Davíð Smári sté jafnframt á stokk og fólk söng og dansaði fram á rauða nótt. 

Á laugardagskvöldið var svo haldinn gala kvöldverður á Broadway.  Þar voru á milli 4 og 500 manns mættir til að gleðjast eftir góða uppskeru þingsins, vel á sjönda tug ályktana sem samþykktar voru og stefnan hafði verið sett af grasrótinni.  Kvöldverðarhófið var sérstaklega glæsilegt í alla staði, húsið glæsilega skreytt, þrírétta kvöldverður og síðir kjólar áberandi.  Skemmtiatriðin voru heldur ekki af verri endanum.  Þingflokkurinn sté á stokk og flutti hið sívinsæla "Traustur vinur" sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra gerði ódauðlegt hér um árið.  Samband ungra framsóknarmanna setti upp leikatriði þar sem meginþemað var leynivinavikan sem haldin var í þinginu um daginn.  Þá mættu hljómsveitirnar Hrútavinabandið og Ljótu hálfvitarnir og skemmtu gestum.  Hinir geðþekku Papar léku svo fyrir dansi á eftir. 

Er það mál manna að flokksþingið hafi verið með glæsilegasta móti enda einkenndi það hlýja, vinátta og samrýmd.  Það er því einstaklega frábært upphaf að harðri kosningabaráttu og framsóknarmenn fara vel nestaðir út í baráttuna.


Spennandi flokksþing um helgina

Framsóknarmenn og -konur geta hlakkað til flokksþingsins á Hótel Sögu um helgina.  Fyrir liggur þykkur bunki af drögum að ályktunum sem finna má á www.framsokn.is, margar hverjar mjög spennandi og ljóst að um einhverjar þeirra verður tekist á. 

Ályktanirnar eru nú unnar með nýjum hætti og eru lagðar þannig fram að menn byrja á því að setja sér markmið, skilgreina síðan leiðir til þess að ná markmiðinu og leggja fram tillögur að fyrstu skrefum.  Framsóknarmenn slá þannig alveg nýjan tón við undirbúning síns flokksþings, allar ályktanir eru vandlega ígrundaðar og unnar og fyrir liggur skýr leið til þess að ná markmiðunum.  Mættu fleiri flokkar taka það sér til fyrirmyndar. 

Athygliverðar tillögur sem finna má í ályktanadrögunum;

Ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku og í auknum mæli verði leitað út fyrir þingflokka þegar kemur að vali ráðherraefna.

Breytingar á kosningalöggjöfinni og tryggja persónukjör og vægi kjósenda við röðun á lista og fjölga kjördæmum til að skapa meiri nálægð milli kjörinna fulltrúa og kjósenda.

Hluta LÍN lána verði breytt í styrki, ljúki námi á tilskildum tíma.

Að auðlindir landsins verði í þjóðareigu.

Heimavinnsla afurða úr hráefnum landbúnaðarins verði efld verulega m.a. með því að endurvekja og viðhalda gömlum framleiðsluháttum og verkþekkingu.

Skilgreina lágmarksframfærslu og hækka frítekjumarkið upp í hana auk þess að taka upp einstaklingsbudninn persónuafslátt, sem einfaldar verulega skattkerfið.

Tryggja að allir landsmenn búi við sambærileg lífeyrisréttindi og afnema sérréttindi þingmanna.

Tryggja jafnan rétt karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins m.a. með lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og sáttmála aðila vinnumarkaðarins og opinberra aðila um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.

Raunveruleg samkeppni í íbúðalánum verði viðhaldið með áframhaldandi tilvist opinberrar lánastofnunar og tryggi lánveitingar til allra landsmanna. Fyrstu skref til að ná þessu markmiði er tafarlaust afnám tengingar íbúðalána við brunabótamat og að lánsfjárhæðir taki mið af raunverulegu verði hóflegra íbúða.

Af www.framsokn.is


Fólkið í landinu

Á Íslandi búa um það bil 305.000 manns, heldur fleiri karlar en konur. Af þessum 305.000 eru 16-17.000 innflytjendur.  Sem niðurgreiddu skatta okkar hinna um 123.000 kr. á síðasta ári. Innflytjendur dreifast um landið í takt við aðra búsetu með litlum undantekningum, ef frá er talið Kárahnjúkasvæðið. Þar er hlutfall þeirra hærra. 

Nýlega samþykkti ríkisstjórnin stefnu í málefnum innflytjenda.  Þar er gert ráð fyrir verulegu átaki í íslenskukennslu, bæði fyrir unga og eldri innflytjendur og að samfélagskennsla verði einnig einn máttarstólpa í kennslu fyrir innflytjendur. Stefnan gerir einnig ráð fyrir að innflytjendur hafi sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir, að upplýsingar um íslenskt samfélag séu aðgengilegar og að virk atvinnuþátttaka verði áfram jafn mikil og raun ber vitni meðal innflytjenda sem hingað flytja. 

Af hverju leggjum við svo mikla áherslu á innflytjendur? Jú, vegna þess að við trúum því að með því að taka vel á móti fólki sem hingað kemur til að vinna (því það gera jú næstum allir, ólíkt nágrannalöndunum), hjálpa því að aðlagast og verða hluti af samfélaginu með jöfnum aðgangi að mennta- og heilbrigðiskerfi, án alls aðskilnaðar eða flokkunar, þá upplifi innflytjendur sig jafna öðrum borgurum í landinu. Þeir muni því aðlaga sig þeim gildum og normum sem aðrir lifa eftir og verða auðveldlega hluti af heildinni.  Aðskilnaður og ójöfnuður hins vegar kallar fram upplifun af því að vera 2. eða 3. flokks borgarar og hegðun fólks verði þá í samræmi við það. 

Það eru hins vegar hópar hér í landinu sem búa ekki við sama aðbúnað og fólk gerir flest. Og þar er ekki um innflytjendur að ræða.  Þetta er fólkið sem býr í sveitum landsins þar sem fólksfækkun hefur verið mikil á undanförnum árum.  Sveitunum þar sem varla er hægt að hóa saman í saumaklúbb vegna mannfæðar. Sveitunum þar sem ýmist er búið að leggja grunnskólana niður eða þeir orðnir svo fámennir að börnin eru öll saman í bekk.  Sveitunum þar sem heilsárs-störfum hefur fækkað á undanförnum árum og mikilvægum stoðum þannig kippt undan samfélaginu. Sveitunum sem þrátt fyrir allt verður að halda í byggð. Verður að halda í byggð vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt. Vegna þess að það skiptir máli fyrir matvælaöryggi Íslendinga. Vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustu. Og öryggi vegfarenda. Vegna þess að þrátt fyrir að öll reiknilíkön fjármálaráðherra geri ráð fyrir því að þjóðin eigi öll að búa á SV-horninu sökum hagkvæmni stærðarinnar, þá er það samt sem áður geggjun að halda að það leysi einhvern vanda.  Þéttbýlisbúar vilja jafnframt halda áfram að geta ekið um blómlegar sveitir á fallegum degi og virða fyrir sér fólk og fénað. Og ferðamenn koma hingað gagngert til að skoða sveitir. Það er viðurkennt. Og hvað ætlum við að sýna þeim 400.000 ferðamönnum sem hingað koma árlega.  Eða þeim 800.000 ferðamönnum sem hingað munu koma árið 2015. Eftir 8 ár.

En hvað er til ráða? Fylgstu með flokksþingi Framsóknar um helgina.

Af www.framsokn.is


Nei eða já?

Þann 31. mars næstkomandi greiða Hafnfirðingar atkvæði um hvort þeir eru tilbúnir að heimila álveri Alcan í Straumsvík að stækka framleiðslugetu sína úr rúmlega 180.000 tonnum í um 460.000 tonn.
Útlit er fyrir spennandi kosningum miðað við þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið.   Andinn í samfélaginu er þó einhvern veginn þannig að allt eins líklegt er að stækkuninni verði hafnað.
Langt er síðan að þessi stækkun kom fyrst til umræðu eða tæpur áratugur. Alcan (þá ÍSAL) stækkaði síðast verksmiðjuna árið 1995. Á þeim tíma var framkvæmdum lítt mótmælt enda mun verra atvinnuástand en nú er og umræður um þessi mál með allt öðrum hætti en á síðustu misserum.
Stækkunin hefur þó verið undirbúin lengi eins og áður sagði. Fyrir liggur umhverfismat frá 2002 þar sem Skipulagsstofnun féllst á stækkunina með skilyrðum. Það segir sína sögu um hvað umræðan hefur breyst að umhverfismatið var ekki kært á sínum tíma. Einnig liggur fyrir starfsleyfi fyrir stækkuninni sem Alcan kærði reyndar, vegna þess að fyrirtækinu þótti of að sér þrengt, en ekki var fallist á kröfur þeirra í þeirri kæru. Samkvæmt starfsleyfinu átti þynningarsvæðið að verða sömu stærðar eftir stækkun og það er nú.
Hafnarfjarðarbær hefur líka spilað með. Bærinn seldi á sínum tíma Alcan lóð undir stækkun fyrir 300 milljónir króna en hefur dregið þar til nú fyrir skömmu að leggja fram tillögu að deiliskipulagi. Samkvæmt tillögunni sem byggð er á samkomulagi við Alcan á að minnka þynningarsvæðið mjög verulega þrátt fyrir að starfsleyfið kveði ekki á um það. En Alcan hefur væntanlega skuldbundið sig gagnvart Hafnarfjarðarbæ til að uppfylla þessar auknu kröfur.
Nú í fyrsta sinn leggur meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar til að kosið verði um mál innan bæjarins. Meirihlutinn hefur löngum stært sig af því að hafa sett inn í samþykktir bæjarins að fram skuli fara kosning um meiriháttar ákvarðanir innan bæjarins. Samfylkingin hefur stjórnað bænum ein frá 2002 og þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til atkvæðagreiðslu. Ekki er ljóst hvort að það þýðir að ekki hafi verið teknar neinar meiriháttar ákvarðanir í bæjarkerfinu síðan þá. Víst er þó að í kosningabaráttunni 2002 taldi Samfylkingin upp mörg mál sem þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði tekið ákvarðanir um en Samfylkingin taldi að hefði átt að kjósa um. Eftir að Samfylkingin tók við stjórn bæjarins hefur semsagt ekki heyrst neitt af atkvæðagreiðslum þar til nú. En batnandi mönnum er best að lifa.
Bæjarstjóri Samfylkingarinnar segist nú ekki hafa ákveðið sig hvort hann greiðir atkvæði með eða á móti stækkun og kvartar yfir að ekki liggi allar upplýsingar fyrir. Það er einkennilegt að senda mál í atkvæðagreiðslu sem sjálfur bæjarstjórinn telur það óskýrt að hann geti ekki tekið ákvörðun - og ætti hann þó að hafa allra bestu upplýsingarnar um málið. 
Samfylkingin á landsvísu hefur líka átt í vandræðum með málið. Flokkurinn gaf út umhverfisstefnuna "Fagra Ísland" - sem gengur í stuttu máli út á það að ekki eigi að byggja nein álver, nema þar sem áform eru uppi um að byggja þau. Formaður flokksins sagði í síðasta mánuði að stækkunin í Straumsvík væri mál Hafnfirðinga og hún myndi ekki taka afstöðu til þess. Í þessum mánuði sagði hún hinsvegar að það ætti ekki að stækka álverið - að minnsta kosti ekki nærri strax. Það eru enn nokkrar vikur í kosninguna svo væntanlega gefast tækifæri til að snúast nokkrum sinnum í málinu enn.
En vonandi kemur þessi hringavitleysa Samfylkingarinnar ekki í veg fyrir að Hafnfirðingar taki þátt í kosningunni þann 31. mars og kjósi með eða á móti stækkun Alcan - eftir sinni bestu vitund.

Þrætueplið

Undanfarna daga hefur umræða um matvælaverð náð nýjum hæðum þegar menn gera eigin skoðanakannanir, bæði kaupmenn sjálfir og fjölmiðlungar.  Reyndar stálu þrjár kartöflur senunni við upphaf vikunnar, sem breyttust svo í kartöflumýs og umræða bloggheimanna snerist um meint nagdýr. Enginn tók eftir því hvað hinn ágæti Sölvi fréttamaður hafði að segja um matvælaverð. Sem segir okkur kannski það hversu auðvelt er að stela senunni með því að beina athygli að einhverju sem skiptir engu máli við umræðuna. 

Það hlýtur hins vegar að vera athyglivert þegar stórkaupmenn (FÍS) gera verðkannanir á þurrvöru í eigin verslunum í þeim tilgangi að sýna fram á að vara sem þeir könnuðu ekki (les. landbúnaðarafurðir) sé hlutfallslega dýrari hérlendis en annars staðar í Evrópusambandsríkjunum. Tilgangurinn var sá , að sögn talsmanns FÍS, að bregðast við umræðu um verðhækkanir sem komið hafa fram að undanförnu. Þær verðhækkanir eru staðreynd og samanburður við aðra breytir engu þar um.

Í lífinu er það stundum þannig að maður verður að velja og hafna. Í allri umræðunni um landbúnaðarmál hefur gleymst að spyrja stórkaupmenn og neytendur hvort þeir vilji þá afleggja íslenskan landbúnað, því þar verður ekki bæði sleppt og haldið. Haldi menn að bæði sé hægt að halda uppi öflugu atvinnulífi í sveitum landsins og þeirri miklu umsýslu sem því fylgir á sama tíma og hingað flæði óheft allt það magn sem landinn getur í sig látið af erlendum landbúnaðarafurðum, þá er það misskilningur. Framleiðsla á vegum bænda nýtur verndar hér, rétt eins og annars staðar í veröldinni. Það er mikill misskilningur að slíkt viðgangist eingöngu hérlendis. 

Hagstofa Íslands telur að það séu um 5300 störf við landbúnað og aðra þjónustu honum tengda á landsbyggðinni.  Alls eru það líklega ríflega 15000 störf sem tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Þar er um að ræða kjötiðnaðarmenn, verslunarfólk, mjólkurfræðinga, kenanra, verktaka, rafvirkja, bílstjóra, smiði, verkafólk og svona mætti halda lengi áfram.  Hér mætti einnig nefna fjölmörg byggðarlög sem væru í stórhættu líka s.s. Borgarnes, Búðardal, Ísafjörð, Hvammstanga, Blönduós, Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Kópasker, Vopnafjörð, Þórshöfn, Raufarhöfn, Egilsstaði, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Hvolsvöll, Hellu, Flúðir, Selfoss.....  

Landbúnaðarráðherra hefur staðið vörð um þau fjölbreyttu störf sem tengjast landbúnaði.  Því miður hefur hann talað fyrir daufum eyrum stórkaupmanna, sem líklega vildu helst að landsbyggðin flyttist í einu lagi á höfuðborgarsvæðið, hagræðisins vegna.  Reiknilíkön sem gera ráð fyrir slíkri byggðaþróun vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar, því það er lítið vit í því að leggja landsbyggðina í eyði og flytja alla á mölina.

Hérlendis eru niðurgreiðslur ríkisins til sauðfjárbænda ekki meiri en í Bretlandi t.d. og miklu minni en í Noregi. Framundan er lækkun virðisaukaskatts á matvæli, niðurfelling vörugjalda, allt að 40% lækkun á tollum á kjötvörum og áform um aukinn markaðsaðgang búvöru í alþjóðasamningum.  Mjókuriðnaðurinn mun jafnframt halda óbreyttu verði næstu 12 mánuði.  Stóra spurningin verður hvort þessar breytingar munu skila sér í lægra matvælaverði til neytenda.  Stórkaupmenn hafa það í hendi sér.

Af www.framsokn.is


Órólega deildin í Samfylkingunni

Órólega deildin í Samfylkingunni kynnti stefnu sína í málefnum aldraðra um síðustu helgi.  Rétt eina ferðina kristallaðist katastrófa sú sem þar ríkir.  Í orði kveðnu tala þau um að velferð eldri borgara verði í öndvegi á næsta kjörtímabili.  Tillögurnar sjálfar miða hins vegar að því að auka enn á órétt þeirra sem minnst mega sín og færa þeim sem mest hafa, enn meira.  
Þannig vill formaður Samfylkingarinnar að þeir tekjulægstu greiði fjármagnstekjuskatt af hýrunni, í stað þess að nýta skattkortið sitt á hana, því ekki dugir skattkortið á fjármagnstekjur. Þeir sem fá miklar tekjur út úr lífeyrissjóðum yrðu þannig að mestu skattlausir en þeir sem minnst hafa færu að greiða meira en þeir gera í dag þar sem ekkert frítekjumark er á fjármagnstekjur. Skattbyrði þeirra sem hafa 100 þúsund kr. tæplega þrefaldast en lækkar um 64% hjá þeim sem hafa 300.00 kr. á mánuði. Hafi menn 500.000 kr. úr lífeyrissjóðnum sínum lækkar tekjuskatturinn úr 157.850 í 50.000 kr. Sanngjarnt?
Formaður Samfylkingarinnar vill jafnframt mismuna landsmönnum eftir aldri. Tillögurnar miða að því að lífeyrisþegar einir njóti sérstakra skattfríðinda. Það er nú enginn sérstakur jöfnuður fólginn í því eða hvað? Hvað með láglaunafólk, námsmenn, ungar barnafjölskyldur, konur, atvinnulausa, öryrkja og sjúklinga?
Formaður Samfylkingarinnar hefur heldur ekki svarað því hvar taka á þá 22 milljarða sem ætlunin er að færa þeim sem vel hafa til hnífs og skeiðar.
Á sama tíma og þessar tillögur koma fram er ljóst að ellilífeyrisþegar hérlendis hafa hærri lífeyrisgreiðslur en sömu hópar í nágrannalöndunum.  Það er einnig ljóst að enginn hópur í samfélaginu hefur dregist aftur úr öðrum síðasta áratuginn hvað varðar launa- og lífeyristekjur.  Eina undantekning sem finna má á þessu eru örfáir auðmenn sem hafa mestallar tekjur sínar af fjármagni og hanga í efri enda kúrfunnar. Allir aðrir hafa notið þeirrar gríðarmiklu hagsældar sem verið hefur hérlendis og tvöfaldað tekjur sínar á undanförnum 12-13 árum.  Líka eldri borgarar.
Þá er rétt að nefna samninginn sem ríkisstjórnin gerði við eldri borgara s.l. sumar þar sem almannatryggingakerfið var allt einfaldað verulega.  Tekjutrygging var hækkuð, skerðingarhlutfall vegna annarra tekna lækkað, frítekjumark hækkað vegna annarra atvinnutekna og vasapeningar hækkaðir um 25%. 20 milljörðum verður varið til þessarra breytinga af hálfu ríkisins.
Samfylkingin vill jafnframt halda áfam að stofnanavæða búsetu eldri borgara á kostnað ríkisins.  Framsóknarmenn hafa lagt áherslu á að eldri borgarar geti búið heima hjá sér sem lengst, því þar vill fólk búa.  Til þess að svo megi verða, þarf að auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu sem annars vegar er á hendi ríkisins og hins vegar á hendi sveitarfélaganna.  Þróunin hefur verið sú að þegar ríkið hefur aukið við sína þjónustu hafa sveitarfélög gjarnan dregið úr sinni þjónustu á móti.  Mikilvægt er að færa þessa þjónustu yfir til sveitarfélaganna með tilheyrandi tekjustofnum og færa hana þannig nær neytendum.  Tvískipting sem þessi kann ekki góðri lukku að stýra og togstreitan sem skapast á milli þessarra aðila er neytendum aldrei til góða.
Á næstu árum verða byggð tæplega 400 ný hjúkrunarrými þar sem lögð verður áhersla á litlar þjónustueiningar þar sem aldraðir geta búið við aðstæður sem líkastar sjálfstæðri búsetu og þannig verður horfið frá stofnanavæðingu og sjúkrahússumhverfi því sem nú þekkist.
Framsókn hefur hins vegar alla tíð lagt áherslu á það að JAFNA kjör fólks, hvaða hópi sem það tilheyrir.  Þess vegna hugnast þeim ekki vel sú hugmynd formanns Samfylkingarinnar að skilja tekjulægstu gamalmennin eftir, rétt eins og fyrrum landlæknir sem hvað harðast hefur beitt sér fyrir því að þeir sem nú þegar hafa vel til hnífs og skeiðar, fái enn meira. Samfylkingin á sem fyrr erfitt með að ákveða hvernig flokkur hún ætlar sér að vera - og kannski er það bara ákveðið í mánaðarlegum könnunum Capacent Gallup. 

Brotlending í vændum?

Flug Vinstri Grænna mælist hátt þessi misserin í skoðanakönnunum. Umhverfismál á umhverfismál ofan eru það sem efst og helst er á baugi á þeim bænum með háværum mótmælum án þess að lagt sé upp með aðrar lausnir eða málin reifuð í heild sinni. Sannarlega þörf umræða en heldur einsleit og ofsafengin á köflum. Þá hafa ýmsir brestir gert vart við sig á þeim bænum að undanförnu, sem rétt er að halda til haga. 
Í Mosfellsbæ samþykkti bæjarfulltrúi VG óafturkræfar vegaframkvæmdir í Álafosskvosinni. Þessi sami bæjarfulltrúi felldi tillögu um að framkvæmdin væri send í umhverfismat. Bæjarfulltrúi þessi skipar 6. sæti á lista VG í SV-kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Á síðasta kjörtímabili mynduðu VG og Samfylking Húsavíkurlistann sem fór með meirihluta í bæjarstjórn Húsavíkur. Foringi VG, Steingrímur J. hefur eignað sér hlutdeild í tilurð þess sambræðings. Þessi sami Húsavíkurlisti studdi uppbyggingu álvers við Bakka á Húsavík og undirritaði fulltrúi þeirra t.a.m. samning við Alcoa vegan áforma fyrirtækisins um að byggja 250 þúsund tonna álver við Bakka.
Oddviti VG í bæjarstjórn Akureyrar, Baldvin H. Sigurðsson, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við byggingu álvers við Bakka og lýst því yfir að hann sjái ýmsa atvinnuskapandi möguleika felast í áliðnaðinum.
Síðasti meirihluti í Skagafirði kom Skatastaðavirkjun inn á tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Orkan sem fæst með því að virkja jökulsárnar norðan Hofsjökuls er ætluð til atvinnuuppbyggingar í Skagafirði. Virkjunin var sett inn á skipulag af þessum meirihluta sveitarstjórnarinnar, sem skipuð er VG og Sjálfstæðisflokki.
Í Borgarnesi eru áætlanir uppi um að leggja Þjóðveg 1 út í sjó meðfram bænum. Til stendur að eyðileggja klettaborgirnar sem Borgarnes kennir sig við og fylla upp í víkur og voga meðfram ströndinni. Framsóknarfólk í Borgarfirði hefur lagt til að vegurinn fari í umhverfismat en meirihluti Borgarbyggðar er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og síðast enn ekki síst VG.
Tryggvi Friðjónsson, fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur styður samkomulag um að Alcan kaupi af Orkuveitunni 200MW af raforku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík.
Steingrímur J. Sigfússon sagði í þingræðu 2005 að neðri virkjanirnar í Þjórsá væru hagkvæmar þar sem þær nýti alla miðlunina sem fyrir er, ofar á Þjórsársvæðinu. Jafnframt segir hann sjálfsagðar margar hagkvæmar beinar rennslisvirkjanir í bergvatnsám, þar sem þær valdi sáralitlum umhverfisáhrifum og eru afturkræfar í þeim skilningi að fjarlægja megi stíflunar, taka rörin niður og hleypa vatninu aftur í sinn farveg. Þann sama dag segir hann sjálfsagt að ráðast í virkjanir í neðri Þjórsá og nefnir Núpavirkjun og Urriðafossvirkjun í því samhengi.
Vinstri grænir tala í sífellu um þá nauðsyn að þeir komi að velferðarstjórn. Ef ríkisstjórnin sem nú situr, er ekki velferðarríkisstjórn, þá vilja þeir væntanlega leggja enn meiri peninga í félagsmál, heilbrigðismál og menntamál. Gott og vel. Ef þetta er rétt hljóta kjósendur að eiga heimtingu á að vita hvar þeir ætla að skera niður á móti. Nú ef þeir ætla ekki að skera niður á móti auknum útgjöldum verða þeir að segja okkur hvort þeir ætla að taka lán fyrir pakkanum eða hvort þeir ætla að hækka skattana.  
Þá þurfa þeir að svara því hvort það er stefna flokksins alls eða bara Ögmundar að losa ríkissjóð undan því veseni að innheimta skatta af bönkunum okkar. Verkalýðsforinginn sá lét þau orð falla í þingræðu að hann sæi ekki á eftir bönkunum þó þeir færu allir úr landi. Hætta er á að hvini illilega í Ögmundi, formanni BSRB, ef samsvarandi fjöldi og vinnur í bönkunum yrði atvinnulaus í hans eigin bandalagi.
Líklega munu forsvarsmenn VG nota þekkta tækni til að halda umræðunni áfram í umhverfismálunum. Það verður eins og hjá ónefndum háskólanema sem var að fara í munnlegt sögupróf. Neminn tók þann pólinn í hæðina að læra eingöngu um Frönsku byltinguna og ekkert annað. Þegar kom að prófinu snerust öll hans svör um hana.  Hún var ýmist órjúfanlegur undanfari svarsins eða afleiðing þess.  
Hinn almenni kjósandi á mjög erfitt með að gera sér grein fyrir stefnu VG. Þá hafa þeir almennt takmarkaða reynslu þegar kemur að stjórnun og heildstæðri stefnumótun í mikilvægum málum. Þeir eru þekktir fyrir það eitt að vera á móti og maður hlýtur að spyrja sig hvort fylgi þeirra er jafngott og raun ber vitni, vegna þess að þeir hafa aldrei gert neitt – nema að vera á móti. Slíkt flug hlýtur að enda með brotlendingu.  Náttúrulögmálin munu taka þá í sínar hendur.

Kveðjubréf til Kristins

Fyrir stuttu síðan kvaddi Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður Framsóknarflokkinn eftir rösklega átta ára veru. Þessi reyndi þingmaður heldur nú á vit hins sérkennilega Frjálslynda flokks. Sá flokkur er nú kominn í það hlutverk að taka við fólki úr nánast öllum öðrum flokkum sem hefur vegnað miður í eigin ranni. Kristinn er aðeins síðasta dæmið í þeirri sögu.  Margt mætti segja um það furðuverk sem Frjálslyndi flokkurinn er orðinn en það verður að bíða betri tíma.
Vera Kristins í Framsóknarflokknum varð stormasöm, einkanlega hin síðari ár. En hann getur ekki haldið því fram að ekki hafi verið tekið vel á móti honum. Honum var treyst fyrir miklu. Aðeins ári eftir inngöngu sína var hann orðinn formaður þingflokksins og hann varð síðan stjórnarformaður Byggðastofnunar.
Þegar hugsað er til baka þá var Kristinn kominn í svipaða stöðu á meðal félaga sinna í Alþýðubandalaginu þegar hann yfirgaf þann flokk eins og hann er nú þegar hann yfirgefur Framsóknarflokkinn. Þeir sem muna þá tíma minnast þess ef til vill að Kristinn var þá farinn að gagnrýna félaga sína í stjórnarandstöðunni opinberlega og taka undir ýmislegt með ríkisstjórnarflokknum.   Að sjálfsögðu höfðu menn innan Framsóknarflokksins heyrt af þessum stíl Kristins en kusu að trúa því ekki á hann að óreyndu.
Félagar hans á þeim tíma vissu hinsvegar fullvel að Kristinn var og er ekki auðveldur í samstarfi. Haft var eftir Svavari Gestssyni þegar ljóst varð að Kristinn væri að ganga í Framsóknarflokkinn að nú væri Ólafs Ragnars að fullu hefnt. Og átti þá við að það hefði ekki verið góð sending að fá Ólaf Ragnar Grímsson yfir í Alþýðubandalagið úr Framsóknarflokknum þegar það gerðist snemma á áttunda áratug 20. aldar.
Eins og áður sagði þá gekk allt vel í fyrstu. Kristinn leiddi framboðslista Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi 1999 og náði þar ágætum árangri. Að loknum kosningum var hann kjörinn formaður þingflokks framsóknarmanna, gat sér gott orð þar í byrjun og lagði fram ýmsar ágætar hugmyndir um eflingu flokksins. Árið 2000 var hann síðan skipaður formaður stjórnar Byggðastofnunar. 
Á því kjörtímabili fór að síga á ógæfuhliðina. Miklir samstarfsörðugleikar urðu í Byggðastofnun á milli Kristins og forstjóra stofnunarinnar, reyndar nánast uppnám á tímabili. Hér skal ekki farið yfir þá sögu en endirinn varð sá að Kristinn lét þar af formennsku árið 2002.
Þegar valið var á framboðslista Framsóknarflokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi haustið 2002 sóttist Kristinn eftir 1. sæti framboðslistans við kosningarnar 2003.  Hann beið þá lægri hlut fyrir Magnúsi Stefánssyni og undi því illa. Kosningabaráttan í kjördæminu bar þess merki og eftir kosningarnar var Kristinn ekki endurkjörinn formaður þingflokksins. Á kjörtímabilinu sem í hönd fór keyrði um þverbak í samstarfinu sem náði hámarki með því að Kristinn var settur út úr öllum nefndum fyrir hönd þingflokksins. Hér er ekki færi á að skrifa þá sögu heldur, en þeir sem þekkja Framsóknarflokkinn vel vita að það þarf mikið til svo gripið sé til aðgerða af þessu tagi innan hans. Eftir að Kristni mistókst síðan öðru sinni að tryggja sér 1. sæti framboðslistans í Norðvesturkjördæmi í þá varð ljóst að hverju stefndi.
Nú er svo komið að leiðarlokum Kristins með Framsóknarflokknum.   Það er léttir fyrir alla eins og Hjálmar Árnason formaður þingflokksins orðaði það í fréttum RÚV. Við vonum að Kristinn sé sáttur með sína ákvörðun og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru líkast til ekki sérlega ósáttir við að sjá á eftir samstarfsmanni sem var búinn að missa áhugann á því að vinna með þeim.
Það er þannig hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokk eða bara hvaða vinnustað sem er að menn eru aldrei sammála um allt. Flestir kannast líklega við að hafa einhvern tíma verið ósáttir við vinnufélaga í lengri eða skemmri tíma.. Það er misjafnt hvað verður úr slíku en yfirleitt er gerð sú krafa til fólks að það láti ekki ágreininginn verða að aðalatriði heldur ræði hann sín á milli og komist að niðurstöðu sem allir vinna síðan sameiginlega að. Oft eru sumir ekki fullkomlega sáttir en setja það til hliðar af því að þeir eiga sér stærri sameiginleg markmið sem skipta meira máli. Kristni auðnaðist ekki að vinna þannig með Framsóknarflokknum.
Það er leitt á vissan hátt því það skrýtna er að á öllum þessum tíma var það sennilega ekki það sem Kristinn sagði sem gerði samstarfið erfitt og síðan ómögulegt – heldur hvernig hann sagði það. Kristinn er mjög hæfileikaríkur maður en líklega á hann ekki vel heima í flokki – hann er líklega betri með sjálfum sér.
Um leið og Kristinn er kvaddur og þakkað fyrir þau ágætu verk sem hann vann líka fyrir flokkinn á þessum átta árum, þá skal honum óskað velgengni á nýjum vettvangi. Þær óskir fylgja þó ekki til flokksins sem hann hefur valið sér því það á sá flokkur ekki skilið.  En Kristinn á það – þrátt fyrir allt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband