7.3.2007 | 13:17
Flett ofan af Össuri
Á heimasíðu sinni segir Össur Skarphéðinsson 5. mars, um auðlindamálið: "Það sem er athyglisvert við þetta allt saman er að þetta er sama Framsókn og lyfti ekki litla fingri til að ná málinu fram í stjórnarskrárnefnd þar sem Samfylkingin tók málið ítrekað upp - og hékk á því einsog hundur á roði. Þá var engu hótað, heldur bugtað og beygt sig fyrir Sjálfstæðisflokknum sem barði Framsókn til að fallast á að engum tillögum yrði skilað fyrr en heildarendurskoðun væri lokið á stjórnarskránni. "
Í ræðu í þinginu á fimmtudaginn var, þann 1. mars segir hann hins vegar: "Við vitum auðvitað sem höfum komið að þessum málum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið einn gegn því að stjórnarskránni yrði breytt með þessum hætti. Þessi yfirlýsing hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra felur því í sér að hann hefur í reynd lofað því að ef tillaga kemur fram um þetta á þinginu muni Framsóknarflokkurinn beita öllu afli sínu til þess að hún nái fram að ganga. "
Össur Skarphéðinsson hefur því gerst sekur um að haga sannleikanum þannig að hann sjálfur fái sem mesta athygli út á málið. Hjá Samfylkingunni virðist því vera alveg sama hvað sagt er, því hávaðinn er það sem skiptir máli á þeim bænum. Hafa vitleysuna yfir nógu oft í þeirri von að almenningur fari að trúa henni. Heldur Össur að kjósendur séu hálfvitar?
Össur má reyndar eiga það að hann orðar hlutina skemmtilega sbr. að Samfylkingin hafi hangið á málinu eins og hundur á roði. Það var hins vegar þannig að Framsókn átti þetta roð skuldlaust en Samfylkingin reyndi að eigna sér það í þeirri von að það nennti enginn að skoða það sem Össur hefur áður sagt í málinu. Og Ingibjörg mágkona hans hleður sólarrafhlöðurnar á Kanarí á meðan hann hangir á roðinu heima.
6.3.2007 | 12:23
Auðlindamál
Forsætisráðherra útilokar ekki í dag, 6. mars, að Sjálfstæðismenn standi við gerða samninga um að auðlindaákvæðið fari inn í stjórnarskrá nú fyrir kosningar, eins og Framsóknarmenn hafa krafist.
Stjórnarandstaðan vill reyndar endilega fá að spila með og hélt heilan blaðamannafund um málið að Ingibjörgu Sólrúnu, formanni Samfylkingarinnar, fjarstaddri. Hún er að sóla sig á Kanarí. Eins og fram kom í Íslandi í dag, í gær, taldi formaður stjórnarskrárnefndarinnar það ekki í sínum verkarhing að mynda nýjan meirihluta með stjórnarandstöðunni inni í stjórnarskrárnefndinni og svíður Össur o.fl. eflaust undan því.
Það er hins vegar athyglivert að lesa um staðreyndir málsins á visir.is þar sem gerð er tilraun til þess að útskýra feril málsins. Þar segir: "Málið hefur ekki verið rætt í stjórnarskrárnefnd síðan í febrúar og segja þingmenn Sjálfstæðisflokks að Framsókn hafi ekki lagt mikla áherslu á það í viðræðum nefndarinnar." Þetta er haft eftir þingmönnum Sjálfstæðismanna.
Nett ábending til blaðamanna Vísis. Hvernig væri að spyrja framsóknarmenn sjálfa? Þeir geta bætt heilmiklu við stjórnmálaskýringar ykkar.
6.3.2007 | 12:13
Að afloknu flokksþingi
Flokksþing framsóknarmanna fór sérstaklega vel fram um síðustu helgi. Á milli 500 og 600 manns mættu og var virkni í nefndastarfi svo mikil að á föstudagskvöldið kl. 22:00 voru enn 120 manns að vinna. Mikill hugur var í mönnum, frambjóðendum og öðrum og var Súlnasalurinn orðinn fullur af fólki kl. 10 á laugardagsmorgni, til að halda þingstörfum áfram. Margir þeirra höfðu samt verið í hinu víðfræðga og margrómaða SUF partýi á föstudagskvöldið þar sem Bjarni Harðar fór svo á kostum að undir tók í húsinu. Davíð Smári sté jafnframt á stokk og fólk söng og dansaði fram á rauða nótt.
Á laugardagskvöldið var svo haldinn gala kvöldverður á Broadway. Þar voru á milli 4 og 500 manns mættir til að gleðjast eftir góða uppskeru þingsins, vel á sjönda tug ályktana sem samþykktar voru og stefnan hafði verið sett af grasrótinni. Kvöldverðarhófið var sérstaklega glæsilegt í alla staði, húsið glæsilega skreytt, þrírétta kvöldverður og síðir kjólar áberandi. Skemmtiatriðin voru heldur ekki af verri endanum. Þingflokkurinn sté á stokk og flutti hið sívinsæla "Traustur vinur" sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra gerði ódauðlegt hér um árið. Samband ungra framsóknarmanna setti upp leikatriði þar sem meginþemað var leynivinavikan sem haldin var í þinginu um daginn. Þá mættu hljómsveitirnar Hrútavinabandið og Ljótu hálfvitarnir og skemmtu gestum. Hinir geðþekku Papar léku svo fyrir dansi á eftir.
Er það mál manna að flokksþingið hafi verið með glæsilegasta móti enda einkenndi það hlýja, vinátta og samrýmd. Það er því einstaklega frábært upphaf að harðri kosningabaráttu og framsóknarmenn fara vel nestaðir út í baráttuna.
1.3.2007 | 21:16
Spennandi flokksþing um helgina
Ályktanirnar eru nú unnar með nýjum hætti og eru lagðar þannig fram að menn byrja á því að setja sér markmið, skilgreina síðan leiðir til þess að ná markmiðinu og leggja fram tillögur að fyrstu skrefum. Framsóknarmenn slá þannig alveg nýjan tón við undirbúning síns flokksþings, allar ályktanir eru vandlega ígrundaðar og unnar og fyrir liggur skýr leið til þess að ná markmiðunum. Mættu fleiri flokkar taka það sér til fyrirmyndar.
Athygliverðar tillögur sem finna má í ályktanadrögunum;
Ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku og í auknum mæli verði leitað út fyrir þingflokka þegar kemur að vali ráðherraefna.
Breytingar á kosningalöggjöfinni og tryggja persónukjör og vægi kjósenda við röðun á lista og fjölga kjördæmum til að skapa meiri nálægð milli kjörinna fulltrúa og kjósenda.
Hluta LÍN lána verði breytt í styrki, ljúki námi á tilskildum tíma.
Að auðlindir landsins verði í þjóðareigu.
Heimavinnsla afurða úr hráefnum landbúnaðarins verði efld verulega m.a. með því að endurvekja og viðhalda gömlum framleiðsluháttum og verkþekkingu.
Skilgreina lágmarksframfærslu og hækka frítekjumarkið upp í hana auk þess að taka upp einstaklingsbudninn persónuafslátt, sem einfaldar verulega skattkerfið.
Tryggja að allir landsmenn búi við sambærileg lífeyrisréttindi og afnema sérréttindi þingmanna.
Tryggja jafnan rétt karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins m.a. með lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og sáttmála aðila vinnumarkaðarins og opinberra aðila um aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
Raunveruleg samkeppni í íbúðalánum verði viðhaldið með áframhaldandi tilvist opinberrar lánastofnunar og tryggi lánveitingar til allra landsmanna. Fyrstu skref til að ná þessu markmiði er tafarlaust afnám tengingar íbúðalána við brunabótamat og að lánsfjárhæðir taki mið af raunverulegu verði hóflegra íbúða.
1.3.2007 | 18:36
Fólkið í landinu
Nýlega samþykkti ríkisstjórnin stefnu í málefnum innflytjenda. Þar er gert ráð fyrir verulegu átaki í íslenskukennslu, bæði fyrir unga og eldri innflytjendur og að samfélagskennsla verði einnig einn máttarstólpa í kennslu fyrir innflytjendur. Stefnan gerir einnig ráð fyrir að innflytjendur hafi sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir, að upplýsingar um íslenskt samfélag séu aðgengilegar og að virk atvinnuþátttaka verði áfram jafn mikil og raun ber vitni meðal innflytjenda sem hingað flytja.
Af hverju leggjum við svo mikla áherslu á innflytjendur? Jú, vegna þess að við trúum því að með því að taka vel á móti fólki sem hingað kemur til að vinna (því það gera jú næstum allir, ólíkt nágrannalöndunum), hjálpa því að aðlagast og verða hluti af samfélaginu með jöfnum aðgangi að mennta- og heilbrigðiskerfi, án alls aðskilnaðar eða flokkunar, þá upplifi innflytjendur sig jafna öðrum borgurum í landinu. Þeir muni því aðlaga sig þeim gildum og normum sem aðrir lifa eftir og verða auðveldlega hluti af heildinni. Aðskilnaður og ójöfnuður hins vegar kallar fram upplifun af því að vera 2. eða 3. flokks borgarar og hegðun fólks verði þá í samræmi við það.
Það eru hins vegar hópar hér í landinu sem búa ekki við sama aðbúnað og fólk gerir flest. Og þar er ekki um innflytjendur að ræða. Þetta er fólkið sem býr í sveitum landsins þar sem fólksfækkun hefur verið mikil á undanförnum árum. Sveitunum þar sem varla er hægt að hóa saman í saumaklúbb vegna mannfæðar. Sveitunum þar sem ýmist er búið að leggja grunnskólana niður eða þeir orðnir svo fámennir að börnin eru öll saman í bekk. Sveitunum þar sem heilsárs-störfum hefur fækkað á undanförnum árum og mikilvægum stoðum þannig kippt undan samfélaginu. Sveitunum sem þrátt fyrir allt verður að halda í byggð. Verður að halda í byggð vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt. Vegna þess að það skiptir máli fyrir matvælaöryggi Íslendinga. Vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir ferðaþjónustu. Og öryggi vegfarenda. Vegna þess að þrátt fyrir að öll reiknilíkön fjármálaráðherra geri ráð fyrir því að þjóðin eigi öll að búa á SV-horninu sökum hagkvæmni stærðarinnar, þá er það samt sem áður geggjun að halda að það leysi einhvern vanda. Þéttbýlisbúar vilja jafnframt halda áfram að geta ekið um blómlegar sveitir á fallegum degi og virða fyrir sér fólk og fénað. Og ferðamenn koma hingað gagngert til að skoða sveitir. Það er viðurkennt. Og hvað ætlum við að sýna þeim 400.000 ferðamönnum sem hingað koma árlega. Eða þeim 800.000 ferðamönnum sem hingað munu koma árið 2015. Eftir 8 ár.
En hvað er til ráða? Fylgstu með flokksþingi Framsóknar um helgina.
1.3.2007 | 18:36
Nei eða já?
1.3.2007 | 18:35
Þrætueplið
Það hlýtur hins vegar að vera athyglivert þegar stórkaupmenn (FÍS) gera verðkannanir á þurrvöru í eigin verslunum í þeim tilgangi að sýna fram á að vara sem þeir könnuðu ekki (les. landbúnaðarafurðir) sé hlutfallslega dýrari hérlendis en annars staðar í Evrópusambandsríkjunum. Tilgangurinn var sá , að sögn talsmanns FÍS, að bregðast við umræðu um verðhækkanir sem komið hafa fram að undanförnu. Þær verðhækkanir eru staðreynd og samanburður við aðra breytir engu þar um.
Í lífinu er það stundum þannig að maður verður að velja og hafna. Í allri umræðunni um landbúnaðarmál hefur gleymst að spyrja stórkaupmenn og neytendur hvort þeir vilji þá afleggja íslenskan landbúnað, því þar verður ekki bæði sleppt og haldið. Haldi menn að bæði sé hægt að halda uppi öflugu atvinnulífi í sveitum landsins og þeirri miklu umsýslu sem því fylgir á sama tíma og hingað flæði óheft allt það magn sem landinn getur í sig látið af erlendum landbúnaðarafurðum, þá er það misskilningur. Framleiðsla á vegum bænda nýtur verndar hér, rétt eins og annars staðar í veröldinni. Það er mikill misskilningur að slíkt viðgangist eingöngu hérlendis.
Hagstofa Íslands telur að það séu um 5300 störf við landbúnað og aðra þjónustu honum tengda á landsbyggðinni. Alls eru það líklega ríflega 15000 störf sem tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Þar er um að ræða kjötiðnaðarmenn, verslunarfólk, mjólkurfræðinga, kenanra, verktaka, rafvirkja, bílstjóra, smiði, verkafólk og svona mætti halda lengi áfram. Hér mætti einnig nefna fjölmörg byggðarlög sem væru í stórhættu líka s.s. Borgarnes, Búðardal, Ísafjörð, Hvammstanga, Blönduós, Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Kópasker, Vopnafjörð, Þórshöfn, Raufarhöfn, Egilsstaði, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Hvolsvöll, Hellu, Flúðir, Selfoss.....
Landbúnaðarráðherra hefur staðið vörð um þau fjölbreyttu störf sem tengjast landbúnaði. Því miður hefur hann talað fyrir daufum eyrum stórkaupmanna, sem líklega vildu helst að landsbyggðin flyttist í einu lagi á höfuðborgarsvæðið, hagræðisins vegna. Reiknilíkön sem gera ráð fyrir slíkri byggðaþróun vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar, því það er lítið vit í því að leggja landsbyggðina í eyði og flytja alla á mölina.
Hérlendis eru niðurgreiðslur ríkisins til sauðfjárbænda ekki meiri en í Bretlandi t.d. og miklu minni en í Noregi. Framundan er lækkun virðisaukaskatts á matvæli, niðurfelling vörugjalda, allt að 40% lækkun á tollum á kjötvörum og áform um aukinn markaðsaðgang búvöru í alþjóðasamningum. Mjókuriðnaðurinn mun jafnframt halda óbreyttu verði næstu 12 mánuði. Stóra spurningin verður hvort þessar breytingar munu skila sér í lægra matvælaverði til neytenda. Stórkaupmenn hafa það í hendi sér.
1.3.2007 | 18:35
Órólega deildin í Samfylkingunni
1.3.2007 | 18:34
Brotlending í vændum?
1.3.2007 | 18:33