6.3.2007 | 12:13
Að afloknu flokksþingi
Flokksþing framsóknarmanna fór sérstaklega vel fram um síðustu helgi. Á milli 500 og 600 manns mættu og var virkni í nefndastarfi svo mikil að á föstudagskvöldið kl. 22:00 voru enn 120 manns að vinna. Mikill hugur var í mönnum, frambjóðendum og öðrum og var Súlnasalurinn orðinn fullur af fólki kl. 10 á laugardagsmorgni, til að halda þingstörfum áfram. Margir þeirra höfðu samt verið í hinu víðfræðga og margrómaða SUF partýi á föstudagskvöldið þar sem Bjarni Harðar fór svo á kostum að undir tók í húsinu. Davíð Smári sté jafnframt á stokk og fólk söng og dansaði fram á rauða nótt.
Á laugardagskvöldið var svo haldinn gala kvöldverður á Broadway. Þar voru á milli 4 og 500 manns mættir til að gleðjast eftir góða uppskeru þingsins, vel á sjönda tug ályktana sem samþykktar voru og stefnan hafði verið sett af grasrótinni. Kvöldverðarhófið var sérstaklega glæsilegt í alla staði, húsið glæsilega skreytt, þrírétta kvöldverður og síðir kjólar áberandi. Skemmtiatriðin voru heldur ekki af verri endanum. Þingflokkurinn sté á stokk og flutti hið sívinsæla "Traustur vinur" sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra gerði ódauðlegt hér um árið. Samband ungra framsóknarmanna setti upp leikatriði þar sem meginþemað var leynivinavikan sem haldin var í þinginu um daginn. Þá mættu hljómsveitirnar Hrútavinabandið og Ljótu hálfvitarnir og skemmtu gestum. Hinir geðþekku Papar léku svo fyrir dansi á eftir.
Er það mál manna að flokksþingið hafi verið með glæsilegasta móti enda einkenndi það hlýja, vinátta og samrýmd. Það er því einstaklega frábært upphaf að harðri kosningabaráttu og framsóknarmenn fara vel nestaðir út í baráttuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook