Stefnumálin kynnt

Forysta Framsóknarmanna kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir komandi alþingiskosningar.

Þar var farið yfir stöðu mála og komið m.a. inn á að Framsóknarflokkurinn er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins sem stendur á traustum grunni og kjósendur vita að orðum hans má treysta, enda hefur flokkurinn verið kjölfesta íslenskra stjórnmála s.l. 90 ár.

Framsóknarflokkurinn ætlar að halda áfram á framabraut, fái hann til þess umboð þjóðarinnar. Erindi flokksins við íslensku þjóðina er brýnna nú en nokkru sinni fyrr því við veljum árangur áfram og ekkert stopp. Framsóknarflokkurinn vill stuðla að áframhaldandi vexti og stöðugleika í efnahagslífinu því einungis þannig verði stuðlað að blómlegra mannlífi, kjör þeirra sem minna mega sín bætt og einungis þannig hlúum við að menntun barnanna okkar og rennum styrkari stoðum undir byggðir landsins.

Í stjórnartíð Framsóknarflokksins hefur þjóðin uppskorið lengsta samfellda hagvaxtarskeið frá upphafi. Atvinnulíf hefur blómstrað og fyrirtækin sótt fram. Kaupmáttur launa hefur aukist jöfnum skrefum og ríkissjóður stendur traustum fótum. Óvíða í heiminum öllum er betra að búa en á Íslandi og bjartsýni og áræðni einkennir íslenska þjóð. Framsóknarmenn vilja halda áfram á þeirri braut, tryggja atvinnu fyrir alla, öfluga menntun og sterkt velferðarkerfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband