Tvær hliðar á sama krónupeningi

Eitt mál sem hefur verið á fleygiferð í umræðunni undanfarið er krónan. Vart líður sá dagur að ekki sé frétt eða fyrirlestur um stöðu hennar í hinu alþjóðavædda umhverfi íslenskra fyrirtækja.
Hagfræðielíta landsins ræðir öðru vísi um þessi mál nú en fyrir nokkrum árum, jafnvel bara nokkrum misserum. Í september talaði Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunnar, um að halda bæri í krónuna en í lok nóvember var komið annað hljóð í strokkinn.
Sum þeirra raka sem áður voru talin gegn upptöku evru eru það síður nú. Þau voru lítill hreyfanleiki vinnuafls, ósveigjanleiki launa og önnur hagsveifla en í ESB. Nú streymir vinnuaflið til Íslands sem aldrei fyrr, launin hafa reynst sveigjanlegri vegna laungreiðslna umfram lágmarkstaxta, auk þess sem síðustu tvær hagsveiflur á Íslandi hafa ekki komið úr sjávarútveginum. Hagsveiflan slær meir í takt við þá evrópsku, þó svo að hún sé mjög mismunandi á milli aðildarríkja ESB.
Sumir spyrja hverju sjálfstæð peningastefna hafi skilað? Hefur reynslan af henni verið góð eða slæm? Flest stóru fyrirtækin telja að krónan skerði samkeppnishæfni þeirra og í vikunni sagði forstjóri Kaupþings t.a.m. að krónan rýrði traust á fyrirtækinu.
Þeir sem lengst ganga í málflutningi sínum vilja skella allri skuld á krónuna vegna þess sem betur mætti fara á Íslandi. Nefna þeir m.a. hátt vöruverð, óhagstæðan viðskiptajöfnuð, verðbólgu, himinháa vexti og minni samkeppni máli sínu til stuðnings.
Málið er flóknara.
Krónan hefur reynst okkur vel í gegnum tíðina á margan hátt og hefur líklega skilað okkur í gegnum núverandi þensluskeið á mildari hátt en hefði hennar ekki notið við. Það er almennt viðurkennt að hagsveiflurnar væru ýktari og lengri hefðum við evru. Það er líka augljóst að vaxtastig Seðlabanka Evrópu myndi henta okkur verr við þær aðstæður sem nú ríkja hér á landi en innlendir stýrivextir.
Þessi mál eru því flókin, vandmeðfarin og viðkvæm. Þau þarf að ræða. Á yfirvegaðan hátt. Ekki í skotgröfunum. Ekki í örvæntingafullri atkvæða- og stefnuleit. Ekki í leit að “patentlausnum”. Heldur með langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
Þetta hefur Framsóknarflokknum einum flokka tekist á undanförnum árum. Forráðamenn hans hafa rætt tengsl Íslands og ESB á opinn og heiðarlegan hátt. Á vettvangi ríkisstjórnar, innan flokksins, meðal atvinnulífsins og í háskólasamfélaginu. Á annað þúsund blaðsíður af fróðleik um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og tengsl við ESB liggja eftir Framsóknarflokkinn. Og ekki einungis um mál sem heyra undir þau ráðuneyti sem hann hefur stýrt. Hann hefur einnig haft forgöngu um umræður og skýrsluskrif um málefni sem hugsanlega hefðu staðið nær öðrum.
Samfylkingin stekkur alltaf til þegar vindar virðast hagstæðir og vill taka stímið beint á aðild að ESB. Sjálfstæðismenn virðast smám saman vera að losna úr þráhyggjuneti fortíðarinnar. Þar á bæ virðist tónninn ekki vera eins hatrammur og áður. Ekkert tal um “ólýðræðislegustu skrifæðisbákn sem fundin hafa verið upp” heyrist nú. Tóninn er mildari, fordómalausari og opnari. Kannski vegna atvinnulífsins. Ef til vill vegna þess að jafn ólíkir aðilar og ASÍ og framkvæmdastjóri LÍU vilja evru, auk allra bankanna og fyrirtækjanna.
Eða skyldi það vera vegna framgöngu Framsóknarflokksins og forystumanna hans? Draga menn ekki dám af sínum sessunaut? Sækjum fram í styrk en ekki veikleika. Skoðum alla kosti vandlega og rjúkum ekki til að vanhugsuðu máli. Tökum skrefin hægt en örugglega með langtímahagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Það er stefna og verklag Framsóknarflokksins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband