Auðlindanýting og náttúruvernd í nýju ljósi

Nú hafa þau Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra mælt fyrir breytingum, sem munu færa umhverfismál og auðlindanýtingu þjóðarinnar inn á nýtt plan og í átt til meiri sáttar í samfélaginu. Ekki veitir af.
Það kom ekki á óvart að forystumaður þess flokks sem reynt hefur að koma því óorði á Framsóknarflokkinn að hann beri hag íslenskrar náttúru ekki fyrir brjósti, skuli rjúka eins og hani á prik og gala um ómöguleika málsins úr ræðustóli Alþingis.
Að sjálfsögðu fer víðsfjarri að sú sé raunin. Með þessum frumvörpum er Vinstri Grænum alvarlega ógnað enda sú sýn, sem Framsóknarflokkurinn kemur með, allt í senn; skynsamleg fyrir nýtingu, skynsamleg og varkár gagnvart vernd íslenskrar náttúru og auðlinda, snjöll og umfram allt framkvæmanleg. Eitthvað sem stjórnarandstaðan hefur ekki komið auga á hingað til, í það minnsta hefur hún svikið þjóðina um að deila því með sér.
Verið er að setja af stað ferli sem styrkir enn frekar það ferli sem fór af stað undir stjórn Sivjar Friðleifsdóttur og Finns Ingólfssonar árið 1999 og kallað hefur verið Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðhita. Er miður hve langan tíma það ferli hefur tekið, en frumvörpin gera ráð fyrir að því ljúki í seinasta lagi árið 2010. Er það vel.
Skilgreina á hvaða auðlindir á að nýta og hverjar á að vernda og skilgreindir verkferlar um hvernig eigi að standa að úthlutun þeirra gæða og gjaldtöku fyrir þau. Er hér sem sagt verið að leiða í lög auðlindagjald, sem ákvarðað verður með útboði og mun því örugglega fást skynsamlegt verð fyrir þær takmörkuðu auðlindir sem þjóðin á, og þar með eðlilegt markaðsverð fyrir þær auðlindir sem eru í einkaeigu.
Verður að horfa á þetta mál með þeim augum að í bígerð er frumvarp um svokallað Landsskipulag, sem ætlað er að samþætta áætlanir ríkisins og sveitarfélaganna um landnotkun og verndun, uppbyggingu innviða, mannvirkja og hvers háttar starfsemi. Vinna þessa hóps eru sjálfsagður hluti af því skipulagi, ásamt öllum öðrum áætlunum ríkisins, t.d. á sviði samgangna, fjarskipta, veitna og annara innviða, náttúruverndar og svo mætti lengi telja.
Einn galli er þó á gjöf Njarðar og þar hafa stjórnarandstæðingar rétt fyrir sér. Frumvörpin gera ekki ráð fyrir að réttindi, sem þegar er búið að úthluta séu afturkölluð, meðan ferlið er í gangi. Það verður með öðrum orðum ekki hægt að trekkja tímann afturábak.  Afturkræf lög myndu þannig skapa ríkinu mikla skaðabótaskyldu, svo nemur fleiri milljörðum eða milljarðatugum. Hvaðan vill stjórnarandstaðan taka þá peninga? Úr sjúkrahúsunum, úr almannatryggingakerfinu, úr vegakerfinu eða hvaðan?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband