Náttúruverndarsinnar takið eftir

Með Kyoto bókuninni var sköpuð ný takmörkuð auðlind, en það er það magn gróðurhúsalofttegunda sem heimilt er að losa út í andrúmsloftið á ári hverju.

Með Kyoto bókuninni var ríkjum gert að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði einungis 10% meiri að meðaltali 2008-2012 en hún var viðmiðunarárið 1990, með þeirri undantekningu þó að stóriðju sem byggir á umhverfisvænum orkugjöfum og er staðsett í litlum hagkerfum er heimilt að byggjast upp að ákveðnu marki.

Hvað gerist eftir árið 2012 er alls óvíst. Líklegast mun það helst ráðast af því hvernig kosningabaráttan til forseta Bandaríkjanna mun þróast, en án þess að langstærsti einstaki losunaraðili gróðurhúsalofttegunda taki þátt, er erfitt að sjá málaflokkinn þróast svo neinu nemi.

Ríkisstjórnin hefur sett fram stefnu til að mæta þeim kvöðum sem þessi skuldbinding hefur í för með sér og felur hún í sér tillögur um eftirfarandi ráðstafanir á næstu árum sem leiða muni til lækkunar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda eða aukningar á bindingu kolefnis.
Þessar ráðstafanir eru:
-Dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum með almennum aðgerðum og með breytingum á skattlagningu á dísilbílum, sem leiði til aukningar í innflutningi á slíkum bílum til einkanota.
-Tryggt verði að fyrirtæki í áliðnaði geri fullnægjandi ráðstafanir til þess að halda útstreymi flúorkolefna frá framleiðslunni í lágmarki.
-Leitað verði leiða til að draga úr orkunotkun í fiskiskipaflotanum.
-Dregið verði úr urðun úrgangs og útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstöðum.
-Aukin verði binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu.
-Áhersla verði lögð á rannsóknir á þeim þáttum sem áhrif hafa á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og þróun lausna og úrræða til að mæta því.
-Efld verði fræðsla og upplýsingagjöf til almennings um leiðir til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Eru hér sem sagt lagðar til ýmsar aðgerðir sem eru margar hverjar flóknar í framkvæmd og ljóst að talsverður kostnaður hlýst af, ef Ísland á að geta staðið við skuldbindingar sínar. Hlýtur því að vera eðlileg að spyrja sig hvernig þeim kostnaði skuli mætt.

Afar ósanngjarnt er að þessi kostnaður sé greiddur af samneyslunni, enda getur ekki verið eðlilegt að einstaklingur sem gengur eða hjólar í vinnunna eigi að taka jafnan þátt í honum og sá sem keyrir sömu leið í bíl sem losar koltvísýring. Einnig er eðlilegt að fyrirtæki sem beitir umhverfisvænni tækni í sinni framleiðslu njóti þess gagnvart samkeppnisaðilum sínum.
Eðlilegt er að hér verði mengunarbótareglan viðhöfð, að sá sem mengi borgi. Stofnaður verði Loftslagssjóður, sem kosti rannsóknir og aðgerðir til að binda gróðurhúsalofttegundir eða að draga úr losun þeirra. Hugsanlegt væri að bjóða verkefni til bindingar kolefnis út og greiða fyrir hvert tonn sem bundið er á þann hátt, en styrkja aðra starfsemi um ákveðna upphæð á bundið eða sparað tonn. 

Tekjum í sjóðinn væri aflað væri í gegnum losunargjald sem lagður sé á hvert losað tonn og væri gjaldið óháð því frá hvaða starfsemi losunin á sér stað. Ef losun Íslands stefndi á ranga braut er gjaldið stjórntæki til að takmarka útblásturinn með hagrænum stjórntækjum. Einnig væri auknir losunarkvótar sem fengust með íslenska ákvæðinu svokallaða boðnir upp, þegar efnahagsástandið þolir frekari stóriðjuuppbyggingu.
Á þennan hátt er skapaður hagrænn hvati til umhverfisverndar, þannig að þeir sem haga gjörðum sínum á umhverfisvænan hátt njóta þess á eigin skinni og þeim, sem stunda umhverfisbætandi starfsemi, er skapaður eðlilegur rekstrargrundvöllur fyrir henni og þeir, sem eru að nýta sér losunarkvóta Íslands, greiði fyrir aðgang að þeirri takmörkuðu auðlind.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband