Órólega deildin í Samfylkingunni

Órólega deildin í Samfylkingunni kynnti stefnu sína í málefnum aldraðra um síðustu helgi.  Rétt eina ferðina kristallaðist katastrófa sú sem þar ríkir.  Í orði kveðnu tala þau um að velferð eldri borgara verði í öndvegi á næsta kjörtímabili.  Tillögurnar sjálfar miða hins vegar að því að auka enn á órétt þeirra sem minnst mega sín og færa þeim sem mest hafa, enn meira.  
Þannig vill formaður Samfylkingarinnar að þeir tekjulægstu greiði fjármagnstekjuskatt af hýrunni, í stað þess að nýta skattkortið sitt á hana, því ekki dugir skattkortið á fjármagnstekjur. Þeir sem fá miklar tekjur út úr lífeyrissjóðum yrðu þannig að mestu skattlausir en þeir sem minnst hafa færu að greiða meira en þeir gera í dag þar sem ekkert frítekjumark er á fjármagnstekjur. Skattbyrði þeirra sem hafa 100 þúsund kr. tæplega þrefaldast en lækkar um 64% hjá þeim sem hafa 300.00 kr. á mánuði. Hafi menn 500.000 kr. úr lífeyrissjóðnum sínum lækkar tekjuskatturinn úr 157.850 í 50.000 kr. Sanngjarnt?
Formaður Samfylkingarinnar vill jafnframt mismuna landsmönnum eftir aldri. Tillögurnar miða að því að lífeyrisþegar einir njóti sérstakra skattfríðinda. Það er nú enginn sérstakur jöfnuður fólginn í því eða hvað? Hvað með láglaunafólk, námsmenn, ungar barnafjölskyldur, konur, atvinnulausa, öryrkja og sjúklinga?
Formaður Samfylkingarinnar hefur heldur ekki svarað því hvar taka á þá 22 milljarða sem ætlunin er að færa þeim sem vel hafa til hnífs og skeiðar.
Á sama tíma og þessar tillögur koma fram er ljóst að ellilífeyrisþegar hérlendis hafa hærri lífeyrisgreiðslur en sömu hópar í nágrannalöndunum.  Það er einnig ljóst að enginn hópur í samfélaginu hefur dregist aftur úr öðrum síðasta áratuginn hvað varðar launa- og lífeyristekjur.  Eina undantekning sem finna má á þessu eru örfáir auðmenn sem hafa mestallar tekjur sínar af fjármagni og hanga í efri enda kúrfunnar. Allir aðrir hafa notið þeirrar gríðarmiklu hagsældar sem verið hefur hérlendis og tvöfaldað tekjur sínar á undanförnum 12-13 árum.  Líka eldri borgarar.
Þá er rétt að nefna samninginn sem ríkisstjórnin gerði við eldri borgara s.l. sumar þar sem almannatryggingakerfið var allt einfaldað verulega.  Tekjutrygging var hækkuð, skerðingarhlutfall vegna annarra tekna lækkað, frítekjumark hækkað vegna annarra atvinnutekna og vasapeningar hækkaðir um 25%. 20 milljörðum verður varið til þessarra breytinga af hálfu ríkisins.
Samfylkingin vill jafnframt halda áfam að stofnanavæða búsetu eldri borgara á kostnað ríkisins.  Framsóknarmenn hafa lagt áherslu á að eldri borgarar geti búið heima hjá sér sem lengst, því þar vill fólk búa.  Til þess að svo megi verða, þarf að auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu sem annars vegar er á hendi ríkisins og hins vegar á hendi sveitarfélaganna.  Þróunin hefur verið sú að þegar ríkið hefur aukið við sína þjónustu hafa sveitarfélög gjarnan dregið úr sinni þjónustu á móti.  Mikilvægt er að færa þessa þjónustu yfir til sveitarfélaganna með tilheyrandi tekjustofnum og færa hana þannig nær neytendum.  Tvískipting sem þessi kann ekki góðri lukku að stýra og togstreitan sem skapast á milli þessarra aðila er neytendum aldrei til góða.
Á næstu árum verða byggð tæplega 400 ný hjúkrunarrými þar sem lögð verður áhersla á litlar þjónustueiningar þar sem aldraðir geta búið við aðstæður sem líkastar sjálfstæðri búsetu og þannig verður horfið frá stofnanavæðingu og sjúkrahússumhverfi því sem nú þekkist.
Framsókn hefur hins vegar alla tíð lagt áherslu á það að JAFNA kjör fólks, hvaða hópi sem það tilheyrir.  Þess vegna hugnast þeim ekki vel sú hugmynd formanns Samfylkingarinnar að skilja tekjulægstu gamalmennin eftir, rétt eins og fyrrum landlæknir sem hvað harðast hefur beitt sér fyrir því að þeir sem nú þegar hafa vel til hnífs og skeiðar, fái enn meira. Samfylkingin á sem fyrr erfitt með að ákveða hvernig flokkur hún ætlar sér að vera - og kannski er það bara ákveðið í mánaðarlegum könnunum Capacent Gallup. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband